Í Márstungnanesi niður frá Stóru-Márstungu er dálítill upphár hóll á sléttu sem sagt er sé haugur Márs bónda sem byggði þar. Svo er sagt að einu sinni hafi menn tekið sig til að brjóta hann, en þegar þeir vóru búnir að grafa um stund litu þeir til bæjarins og sýndist hann standa í björtu báli. Þeir hlupu heim og var enginn eldur á ferðum. Þeir tóku þá til aftur (daginn eftir, segja sumir) og grófu enn um stund. Þá sýndist þeim koma vopnaður her ofan eftir nesið. Þá stökk sinn í hvurja átt, en þá hvarf herliðið. Þá sýndist mönnum óráð að eiga við Már lengur og fylltu upp aftur gryfju þá er þeir höfðu grafið.
Verið getur að hér sé blandað málum og sama saga sé sögð um annan haug sem hafi átt að rjúfa, en víst er um það að í Márshaug hefir verið grafið því þar sér enn laut eftir sunnan í honum.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 351.