Móhúsa-Skotta

Móhús er kot eitt í Stokkseyrarhverfi á Eyrarbakka, kallað Vestri-Móhús. Þar bjó lengi og mestallan búskap sinn Jón ríki Þórðarson sem var eins nafntogaður á Suðurlandi fyrir auðlegð sína eins og Böggustaða-Jón á Norðurlandi. Jón var bláfátækur með fyrsta, en efldist ótrúlega af litlum efnum og komst svo vel í tána að sagt var hann keypti jörð með ári þegar á leið fyrir honum. Að sumum þeim jörðum komst hann með léttu verði. Jón bjó fyrst á Refstokki hjá Ferjunesi (Óseyrarnesi); er það kot nú í eyði; þar kom til hans unglingsstúlka og beiddist gistingar, en var úthýst. Varð hún svo úti um nóttina og gekk aftur og fylgdi Jóni lengi síðan og gjörði honum ýmsar skráveifur. Hún var kölluð Skotta og eftir að Jón flutti að Móhúsum vestri spillti hún öllu fyrir honum er hún gat og drap fénað bæði fyrir honum og öðrum með illum aðsóknum á undan Jóni. Þar með var hún honum sjálfum svo nærgöngul að hún nagaði sundur hverja sokkana eftir aðra á hásinunum á honum og þvengina í skóm hans og var það í mæli að þó hann færi í nýja sokka að morgni væri þeir í sundur að kvöldi. Jafnan hafði Jón spannarlangan spotta í skyrtukragaknöppum sínum og var sagt að hann gjörði það til þess að Skotta gæti því síður kyrkt hann, en til þess leitaði hún einatt.

Það var og eignað Skottu að hún hefði ært mann um hábjartan dag í Ranakoti í Stokkseyrarhverfi og fannst hann kyrktur þar í brunni einum er að var komið. Þó kastaði aldrei tólfunum fyrr en hún tók saman við Sels-Móra sem síðar verður nefndur. Þá var það einn vetur er þau Móri og Skotta höfðu lagt lag sitt saman að maður sá er Tómás hét í Norðurkoti á Eyrarbakka fór fyrir jólin austur í Stokkseyrarhverfi og keypti sér þar hangiketskrof til hátíðarinnar og fór á stað úr hverfinu með það heimleiðis undir dagsetur. En um morguninn fannst hann dauður, allur sundurtættur, blár og blóðugur, í Arnhólma rétt fyrir utan Stokkseyrarhverfi skammt þaðan sem Móri hafði orðið úti upphaflega. Eftir það sáu menn þrjá draugana á ferð þar sem áður voru ekki nema þau tvö hjónaleysin, Móri og Skotta, og töldu menn víst að Tómás þessi hefði gjörzt félagi þeirra. Þá urðu svo rammir reimleikar að engum var fært að fara úr því hálfrokkið var á kvöldin frá Stokkseyri út á Bakka eða af Bakkanum og austur þangað án þess um hann væri villt eða hann yrði fyrir bekkingum þessara þriggja fylgifiska. Móhúsa-Jón fann sér skyldast að skerast í leikinn að því er Skottu snerti sem allajafna þótti verst þeirra þriggja. Hann skrifaði því þenna vetur Jóni bónda Magnússyni á Þykkvabæjarklaustri sem orð lék á að vissi jafnlangt nefi sínu og bauð honum þrjátíu ríkisdali til að koma af reimleikum á Eyrarbakka því honum var farinn að standa stuggur af þeim. Á lestunum, þegar Jón kom að austan, er það sagt að Móhúsa-Jón hafi greitt honum helming verðlaunanna fyrir fram. Í þeirri ferð er það haft fyrir satt að Klaustur-Jón hafi fyrirkomið þeim báðum, Skottu og Tómási, því aldrei varð þeirra vart eftir það á Eyrarbakka. Segja þó sumir að Jón hafi farið með Skottu austur með sér, en nær hefði hún drekkt honum og öllum skipverjum er í það sinn voru fluttir yfir Þjórsá á Sandhólaferju. En Jón kvað Skottu niður fyrir austan. En af því Klaustur-Jón fyrirkom ekki Sels-Móra vildi Móhúsa-Jón ekki greiða honum þann helming launanna sem eftir stóð. Klaustur-Jón sagðist hvergi hafa fundið hann og þar með mætti nafna sinn einu gilda hvað um hann væri þar sem hann væri óriðinn við hann. Móhúsa-Jón lét hann allt um það engan skilding hafa framar og skildu þeir nafnar við það ekki meir en sáttir.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 347–348.

© Tim Stridmann