Ófælni drengurinn

Einu sinni var strákur mjög ófyrirleitinn og ósvífinn. Þeir sem að honum stóðu, hvort það heldur voru foreldrar hans eða aðrir vandamenn, voru mjög áhyggjufullir af þessu því hvernig sem þeir fóru að við hann komu þeir engum beyg inn hjá honum með neinu móti. Þegar þeir voru orðnir uppgefnir við hann komu þeir honum til sóknarprestsins sem þeir trúðu allra manna bezt til að koma einhverju tauti við drenginn og beygja lund hans. Þegar drengurinn kom til prests bryddi skjótt á hinu sama, að honum stæði ekki geigur af neinu hverra ráða sem prestur leitaði til þess. En ekki sýndi drengurinn honum heldur en þeim sem hann var hjá áður dælsku eða þrjózku. Leið svo fram um hríð að drengur var hjá presti og gjörði prestur sér allt far um að gjöra honum hverft við á ýmsan hátt, en það tókst honum aldrei.

Einu sinni um vetur var komið með þrjú lík til kirkju sem jarða átti, en vegna þess að líkin komu seint á degi voru þau látin í kirkjuna um kvöldið og átti að jarða þau daginn eftir. Það var siður í þá daga hér á landi að grafa lík kistulaus og svo voru þessi og aðeins í líkblæjum. Þegar líkin voru borin í kirkjuna lét prestur leggja þau inn þveran gang milli stóla í framkirkjunni, hvert innar af öðru svo bil var á milli. Þegar komið var fram á vökuna segir prestur við drenginn: „Bregð þú þér snöggvast út í kirkju fyrir mig, drengur minn, og sæktu bók sem liggur á altarinu.“ Drengur brá við skjótt því hann var ekki ógegninn þótt hann væri ófyrirleitinn. Síðan gengur hann út í kirkju, lýkur henni upp og ætlar að ganga inn eftir kirkjugólfinu. Þegar hann er kominn skammt innar úr dyrunum dettur hann flatur um eitthvað sem hann rak í fæturna. Hann lætur sér ekki bilt við verða, leitar fyrir sér og finnur að hann hefur dottið um eitt líkið, tekur það því og snarar frá sér upp í stólana öðrumegin. Því næst gengur hann innar og dettur hann þá í annað sinn um hið næsta lík. Fer hann þá eins með það og hið fyrra. Síðan heldur hann áfram og dettur þá um þriðja líkið og fer með það sem hin að hann varpar því upp í stólana af ganginum. Eftir það gengur hann inn að altari, tekur bókina, læsir kirkjunni og fær presti hana. Prestur tekur við bókinni og spyr hvert hann hafi einkis orðið var. Drengurinn kvað nei við og brá sér ekkert. Prestur mælti: „Nú, varðstu ekki var við líkin í kirkjunni sem voru á ganginum? Ég mundi ekki að vara þig við þeim.“ Drengurinn mælti: „Jú, líkin; ég varð var við þau, ég vissi ekki hvað þér áttuð við, prestur góður.“ „Nú, hvernig varðstu var við þau,“ segir prestur, „þau hafa líklega orðið fyrir þér.“ Drengurinn mælti: „Og ekki tel ég það.“ „Hvernig fórstu að komast inn eftir kirkjugólfinu?“ segir prestur. „Ég snaraði þeim af ganginum upp í stólana; þar liggja þau.“ Prestur hristi höfuðið og innti hann ekki meir eftir þessu. Um morguninn þegar fólk var komið á fætur segir prestur við drenginn: „Þú verður að hafa þig héðan; ég vil ekki hafa þig á heimili mínu þar sem þú ert svo ófyrirleitinn að þú svífist ekki að raska ró framliðinna.“ Drengur tók þessu vel og kvaddi prest og heimamenn hans.

Eftir það fer hann svo nokkra stund að hann á hvergi höfði sínu að að halla. En á bæ einum þar sem hann var nótt fréttir hann að biskupinn í Skálholti sé andaður. Hann leggur þá krók á hala sinn og fer í Skálholt. Þegar hann kom þangað var degi farið að halla og því biður hann þar gistingar. Honum var svarað að ekki væri honum gisting of góð, en sjálfur mætti hann ábyrgjast sig. Hann spurði hvert þar lægi nokkuð við eða hvað því ylli. Fólkið svaraði honum að svo hefði brugðið við fráfall biskupsins að þar héldist ekkert mannsbarn við á staðnum þegar dimma tæki fyrir reimleika og því yrði heimafólk allt að flýja staðinn á hverri nóttu síðan. „Þá þykir mér því betra að vera hér,“ mælti drengur. Heimamenn báðu hann ekki mæla slíkt því þar væri gamanleysa að vera.

Þegar dimma tók fóru heimamenn að tínast burt af staðnum og kvöddu dreng hryggir í huga því þeir bjuggust ekki við að sjá hann aftur. Drengurinn varð eftir og var hinn hressasti. Þegar dimmdi fór hann og kveikti ljós. Fór hann þá um hús öll og leitaði um. Síðast verður honum gengið inn í eldhúsið. Var þar búlegt vel; feit sauðarföll héngu hvert við annað í rótinni og allt var að því skapi er hann sá. Drengur hafði lengi ekki bragðað hangið kjöt og fer hann nú að langa í það er hann sá svo miklar nægtir af því fyrir hendi.

Ekki vildi hann taka á sig náðir svo hann gæti því betur orðið var við reimleikann og ræður það nú af að hann fer og kveikir upp eld, brýtur við og setur upp pott með vatni og brytjar síðan eitt fallið þar ofan í. Hingað til hafði hann einkis vísari orðið um reimleikann. En er allt er komið í pottinn heyrir hann að sagt er uppi á eldhússtrompinum með dimmri röddu: „Má ég detta?“ Hann svarar: „Því ætli þú megir ekki detta?“ Í því kom ofan um strompinn allur efri hluti af manni, höfuð með öxlum og handleggir við með höndum, og liggur flikki þetta þar á gólfinu hreyfingarlaust um hríð. Því næst heyrir drengur að spurt er uppi á eldhússtrompi: „Má ég detta?“ Hann svarar sem fyrr: „Því ætli þú megir ekki detta?“ Kemur þá ofan um strompinn miðhlutinn af manni ofan að lærum. Þetta flikki dettur niður hjá hinu fyrra og liggur svo hreyfingarlaust. Þá heyrir drengur enn að spurt er uppi á eldhússtrompi: „Má ég detta?“ Hann svaraði sem áður: „Því ætli þú megir ekki detta? Eitthvað þarftu til að standa á.“ Koma þá niður fætur af manni og voru kynja stórir eins og hinir bútarnir sem fyrri höfðu fallið. Þegar flikki þessi voru dottin niður lágu þau um kyrrt nokkra stund á gólfinu. En er piltinum leiðist þetta gekk hann að bútunum og sagði: „Úr því þú ert kominn allur inn þá er þér nú bezt að fara á kreik.“ Skriðu þá allir bútarnir saman og varð af þeim maður afar stór. Ekki yrti hann á piltinn og gekk svo úr eldhúsinu og fram í bæ. Drengurinn veitti hinum mikla manni eftirför þar sem hinn fer fyrir. Hinn mikli maður gekk inn í skála einn fram í bænum og þar að stórri kistu. Hann lauk henni upp og sér þá drengurinn að hún er full af peningum. Tekur hinn mikli maður þá hvað eftir annað fullar lúkur sínar úr kistunni og eys þeim yfir hvirfil sér og lætur hrynja niður eftir sér. Að þessu er hann fram eftir allri nóttu þangað til hann hefur tæmt kistuna. Tekur hann þá [til] hrúgunnar er hann hafði ausið út á gólfið og eys eins úr henni yfir höfuð sér ofan í kistuna. Drengurinn stóð þar hjá meðan draugurinn jós peningunum fram og aftur og sá hversu þeir ultu víðs vegar um gólfið. Lætur nú draugsi mjög til sín taka er hann snarar peningunum í kistuna og sópar greipum um skálagólfið eftir þeim sem hrotið höfðu úr hrúgunni; enda þóttist nú pilturinn skilja að hann mundi halda að farið væri að líða að degi og því vilji hann flýta sér sem auðið sé.

Nú kemur þar að að draugurinn hefur komið öllum peningunum aftur ofan í kistuna og þykir nú drengnum fararsnið á honum; hann ætlar að snarast fram úr skálanum. Drengurinn kvað honum mundi ekki liggja á að hraða sér svo mjög, en draugur kvað þó svo vera því nú væri kominn dagur. Ætlar draugur þá út hjá honum, en pilturinn tók þá til hans og vildi aftra honum. En þar kom að um síðir að draugurinn reiddist, þreif til drengsins og kvað honum nú ekki lengur mundi tjá að aftra sér útgöngu. Drengurinn tók á móti afturgöngunni og fann það skjótt að sig mundi skorta mikið á afl við hana, og fór því undan í flæmingi og varðist aðeins stórmeiðslum og föllum, og gekk svo um hríð. Einu sinni er draugurinn sneri bakinu fram að skáladyrunum er stóðu opnar ætlaði hann að vega drenginn upp á bringu sér til að slengja honum því fastar niður. Pilturinn sá fyrirætlun þessa í hendi og þykist vita að það muni verða bani sinn. Tók hann þá það ráð er draugurinn rembdist sem mest að toga hann að sér að hann hleypur upp í fangið á honum svo hart að draugurinn dettur aftur á bak og verður þrepskjöldurinn í skáladyrunum undir miðjum hrygg hans, en drengurinn lendir við fallið ofan á honum. En svo vildi til þegar afturgangan datt fram úr skálanum með hausinn að dagsbirtuna sem þá var komin á mitt loft lagði í augu hennar, og sökk hún því í tveim hlutum niður þar sem hún lá, sinn hvorumegin þrepskjaldarins, og luktist gólfið þegar aftur er hlutarnir hurfu.

Þó pilturinn væri nokkuð stirður og marinn af átökum afturgöngunnar tekur hann sig þó til og býr til tvö krossmörk úr tré er hann rekur þar niður í gólfið þar sem bútarnir höfðu sokkið niður, annan fyrir innan, en hinn fyrir framan skáladyrnar. Síðan leggst hann niður og sofnar þangað til staðarmenn koma um morguninn er fullbjart var orðið. Þeir heilsa honum og voru glaðari í bragði er þeir sáu hann lifandi en þeir höfðu kvatt hann kvöldið áður og spurðu hvert hann einkis hefði orðið vísari um reimleika á staðnum um nóttina. Drengurinn kvaðst þar einkis reimleika hafa orðið var. Heimamenn vildu ekki trúa honum hvernig sem hann leitaðist við að sannfæra þá um það. Síðan var hann þar um kyrrt daginn eftir, því bæði var hann þrekaður af viðureign sinni við afturgönguna og svo vildu heimamenn ekki missa hann fyrir nokkurn mun er hann hughreysti þá. Um kvöldið er hann sá að heimamenn fóru að hafa sig til vegs leitaði hann allra bragða til að koma þeim til að vera kyrrum á staðnum og kvað þeim ekkert mein mundi verða að reimleikanum. En það kom fyrir ekki; fólkið trúði honum ekki og fór því burtu sem hið fyrra kvöldið; en þó hafði hann það áorkað með umtölum sínum og hughreystingum að það skildi við hann óhrætt. Þegar fólkið var allt farið af staðnum tók pilturinn á sig náðir, hvíldist nú vært og svaf til morguns. Þegar heimamenn komu daginn eftir spurðu þeir hann enn eftir um reimleikann, en hann kvaðst einkis hafa orðið var um hann, enda kvað hann ekki mundi þurfa að óttast slíkt framar. Sagði hann þá upp alla sögu um hina fyrri nótt og sýndi þeim krossmörkin í gólfinu er skrokkbútarnir höfðu farið niður og með þessu leiddi hann menn að peningakistunni. Þeir þökkuðu drengnum fagurlega alla framgöngu sína, báðu hann þiggja það er hann vildi af þeim kjósa til launa fyrir aðgjörðir sínar, hvort heldur væru peningar eða aðrir aurar, og að hann skyldi dvelja í Skálholti svo lengi sem hann vildi. Hann þakkaði þeim góð boð og kvaðst hvorki þurfa auð né annað og ekki mundi hann dvelja þar lengi héðan af. Þó var hann þar um nóttina og var þar þá allt fólk heima og bar ekki neitt á neinu þá né síðan.

En að morgni bjó pilturinn sig til ferðar úr Skálholti; heimamenn vildu ekki af honum sjá, en ekki tjáði annað en hann færi. Hann kvaðst nú ekkert hafa þar lengur að gjöra úr því heimamenn gætu haldizt við á staðnum. Síðan fór hann úr Skálholti og var það öllum staðarmönnum mjög nauðugt; hann stefndi þaðan norður á afrétt. Engar sögur fóru af honum um hríð unz hann kom einn dag að helli einum. Hann gekk þar inn og sá engan mann, en tólf rúm sá hann þar í afhelli, sín sex hvert á móti öðru. Rúmin voru öll óumbúin og af því enn var nokkuð eftir af degi svo hann gat ekki búizt við að hellisbúar kæmu heim að sinni fór hann og bjó um öll rúmin. Þegar hann var búinn að því lagðist hann ofan í yzta rúmið öðrumegin, breiddi vandlega ofan á sig og sofnar. Eftir nokkra stund vaknar hann við umgang í hellinum og heyrir að þar eru komnir margir menn, og eru þeir að furða sig á hver þar muni hafa komið og gjört sér þann greiða að búa um rúm þeirra og kváðu hann fyrir það góðs maklegan. Síðan fara þeir að hátta er þeir höfðu matazt eftir því sem honum virtist. En er sá sem átti rúmið er hann lá í fór að fletta ofan af því varð hann skjótt var við piltinn. Þökkuðu hellisbúar honum fyrir handtak þetta er þeim hefði komið svo vel og báðu hann dveljast þar og vera þeim til aðstoðar heima í hellinum því þeir væru vant við látnir, yrðu að fara með sólu frá hellinum því annars kæmu óvinir þeirra og berðust þar við sig, svo þeir vegna þess gætu engu sinnt heima fyrir. Pilturinn kvaðst mundi þiggja tilboð þeirra og dveljast hjá þeim um sinn. Hann innti þá eftir hvernig á því stæði að þeir ættu í svo stríðri styrjöld á hverjum degi sem ekki linnti. Hellisbúar kváðu menn þessa hafa verið fjandmenn sína og hefðu þeir oft etið illdeilum að undanförnu og hefðu þeir hellismenn jafnan orðið þeim yfirsterkari. Þeir kváðust og enn verða þeim öllum efri á hverju kvöldi og fella þá. En nú brygði svo við að fjandmenn sínir væru allir gengnir aftur að morgni og væru æfari og ákafari en þeir hefðu verið nokkru sinni áður, og mundu þeir án efa veita sér atför í hellinum af þeir væru ekki til taks á vígvellinum með sólu. Eftir þetta lögðust þeir að sofa og sváfu til morguns. Fóru hellismenn vopnaðir þegar með sólu úr hellinum og báðu piltinn að annast um helli sinn og heimastörf; hann hét góðu um það.

Um daginn fór drengurinn á hnotskóg í þá átt er hann sá þá hverfa um morguninn frá hellinum til að forvitnast um hvar þeir ættust við. Þegar hann kom auga á hvar orrustuvöllurinn var hvarf hann aftur inn í hellinn. Eftir það býr hann um rúm hellisbúa, sópar allan hellirinn og gjörir allt sem gjöra þurfti. Um kvöldið komu hellisbúar heim þreyttir og dæstir og urðu þeir fegnir að pilturinn hafði hirt um öll þeirra föng svo þeir þurftu ekki annað að gjöra en matast og ganga til rekkna að því búnu. Síðan fara þeir að sofa allir nema pilturinn. Hann vakir og er að hugsa um að komast að hvernig á því standi að fjandmenn hellisbúa gangi aftur á næturnar. Þegar hann hyggur félaga sína alla sofnaða fer hann á fætur, tekur af vopnum þeirra það er honum leizt bezt á og hefur með sér. Síðan gengur hann á stað til vígvallarins og kemur þar aflíðandi miðnætti. Var þar ekkert að sjá nema fallna og höggna hausa. Hann dvelur þar um hríð. En með aftureldingunni sér hann hvar hóll einn skammt frá vígvellinum lýkst upp; kom þar út kona; hún var í blárri skikkju og hélt á krukku í hendinni. Hann sér að hún gengur rakleiðis að valnum þangað sem einn lá fallinn og ber úr krukkunni með hendinni á strjúpann á bol hins dauða og eins á hálsinn er var fastur við hausinn og setti svo höfuðið við bolinn, og varð það þegar fast og lifnaði hann við aftur. Þetta sama bragð lék hún við tvo eða þrjá aðra og lifnuðu þeir eins við. Þá óð drengurinn að kerlingu og hjó hana banahögg því nú þóttist hann vita hvað ylli afturgöngu fjandmanna hellisbúa; síðan drap hann þá er hún hafði endurlífgað. Þegar hann var búinn að því fór hann sjálfur til og reyndi hvert sér tækist að lífga hina föllnu á sama hátt og konunni og reið á strjúpann úr krukkunni og tókst það ekki síður en áður.

Gjörði hann nú ýmist að hann lífgaði valinn eða drap þá aftur er hann hafði lífgað þangað til sól var komin upp enda komu þá félagar hans úr hellinum vígbúnir og hafði þeim orðið hverft við er hann var horfinn þeim og sum vopn þeirra. Þegar þeir komu á vígvöllinn þótti þeim mjög hafa brugðið til betra er fjandmenn þeirra lágu allir dauðir og hreyfingarlausir. Hellisbúar fögnuðu nú vel drengnum er þeir sáu þar og spurðu hvernig á því stæði að hann hefði farið þangað. Hann sagði þeim þá upp alla sögu og það með hversu álfkonan hefði ætlað að lífga þá föllnu aftur. Hann sýndi þeim smyrslakrukkuna, tók einn hinna föllnu, reið á hann smyrslunum og setti við hann höfuðið. Lifnaði hann þá skjótt við sem fyrr, en þeir félagar drápu hann þegar. Eftir þetta þökkuðu hellisbúar honum með mörgum fögrum orðum framgöngu sína og báðu hann vera hjá sér svo lengi sem honum líkaði og buðu honum fé fyrir liðsinni sitt. Hann bað þá hafa þökk fyrir góð boð og kvaðst hann mundi þekkjast það að vera hjá þeim. Eftir þetta allt urðu hellisbúar svo kátir og fegnir drengnum að þeir léku við hvern sinn fingur; komu þeir þá upp með það að þeir skyldu nú reyna hvernig það væri að deyja fyrst þeir gætu lífgað hver annan aftur. Drápu þeir þá hver annan og báru smyrslin á svo þeir lifnuðu þegar við aftur. Hentu þeir að þessu hið mesta gaman um stund.

Einu sinni er höfuðið var höggvið af drengnum og hafði verið grætt við búkinn aftur sneri andlitið aftur á því, en hnakkinn fram. En er drengurinn sá afturhluta sinn með því höfuðið horfði öfugt varð hann sem óður af hræðslu og bað þá fyrir alla muni að losa sig við þá kvöl. Hlupu þá hellisbúar til og hjuggu af honum höfuðið að nýju og græddu það rétt við búkinn. Fékk hann þá aftur allt ráð og rænu og var jafn óhræddur og hann hafði verið ávallt eftir þetta. Síðan drógu þeir félagar saman alla búka hinna dauðu, flettu þá vopnum og brenndu þá og álfkonuna með þeim er kom úr hólnum með smyrslakrukkuna. Eftir það gengu þeir í hólinn, tóku þaðan allt sem fémætt var og fluttu heim í helli sinn. Drengurinn var með þeim síðan og hafa ekki fleiri sögur farið af honum eftir þetta.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 259–264.

© Tim Stridmann