Sels-Móri

Á Eyrarbakka í Árnessýslu er til draugur sá sem Sels-Móri heitir. Hann er svo undir kominn að maður var sá er Einar hét og bjó í Borg í Hraunshverfi seint á 18. öld; hann úthýsti dreng nokkrum sem komið hafði flakkandi eins og margt fólk fleira um þær mundir austan úr Skaftafellssýslu eftir að Skaftáreldurinn geisaði þar. Þetta var um vetur, en drengur bæði svangur og klæðfár og varð því úti nóttina eftir skammt frá Borg og fannst dauður í dæl þeirri er Skersflóð heitir. Þó drengurinn væri grafinn fór smátt og smátt að bera á því að hann fylgdi Einari og niðjum hans. Einkum er sagt að hann hafi fylgt Þuríði og Salgerði systurdætrum Einars sem lengi bjó í Efraseli og af því hann var þar lengst viðloða er hann kallaður Sels-Móri. Ekki er þess getið að hann hafi drepið menn meðan hann var einn um hituna fyrr en hann komst í tigið við Móhúsa-Skottu sem fyrr segir. En það skildi á milli þeirra hjónaleysanna hans og Skottu að honum varð ekki fyrir komið er Skotta var af dögum ráðin af því hann fannst hvergi er hún var yfirstigin og segja menn því að hann sé einn á kreiki eftir um Bakkann.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 364.

© Tim Stridmann