Sending

Bóndi nokkur á Vesturlandi komst einu sinni í deilu við nágranna sinn og flugust þeir á í illu; varð nágranni hans undir í skiptum þeirra; heitaðist hann þá við bónda að senda honum þá sendingu er skyldi ríða honum að fullu. Eftir það skildu þeir og fór bóndi heim.

Eitt kvöld um veturinn eftir sigraði bónda svo mikill svefn að hann gat með engu móti haldið sér uppi. Kona hans sat upp í rúmi þeirra með prjóna sína; sagði hún manni sínum að hann skyldi fara upp fyrir sig í rúmið og sofna. Hann gerði svo.

En er hann er nýsofnaður þá kemur draugur inn á baðstofugólfið og ætlar þegar að æða upp í rúmið á bónda.

Konan spyr hvert hann ætli. Draugurinn svarar: „Ég er sendur til þess að drepa bónda þinn.“

Hún mælti þá: „Þú verður að gera dálítið fyrir mig fyrst, en það er að sýna mér hvað stór þú getur orðið.“

Draugur teygði nú úr sér svo hann náði upp í mænir.

„Langur getur þú orðið,“ sagði konan. Því næst tekur hún upp hjá sér eitt lítið glas og mælti við drauginn: „Geturðu nú gert þig svo lítinn að þú komist ofan í glasið að tarna?“

Draugur kvað sér lítið fyrir því; brást hann þá í flugu og skauzt ofan í glasið, en konan lét skjótt í tappa og líknabelg yfir og kom svo öllu fyrir; varð bónda hennar aldrei mein að þessari sendingu.

© Tim Stridmann