Sendingin og Páll á Kleif

Páll er maður nefndur; hann var Pétursson og bjó á Kleif í Fljótsdal er saga þessi gjörðist. Hann var afburðamaður að afli og glíminn eftir því. Einu sinni fór hann á Vopnafjörð og glímdi þar við marga; þar á meðal vóru þrír menn er höfðu glímugaldur. Þessa menn alla er við hann glímdu felldi hann, og þá er galdurinn höfðu lerkaði hann. Einn af þeim hét Ásmundur og var frá Burstarfelli. Þeir segja þá við Pál að það sé illt ef hann skuli ekki fá pilt að glíma við; hann segir það sé þá að taka því. Ekki er getið fleiri sameigna þeirra í þetta sinn og fór Páll heim til sín.

Stjúpsonur hans hét Eiríkur og var Rúnúlfsson. Hann var smali hjá stjúpa sínum. Það var einn dag er hann kom frá fé að áliðnu sumri að Páll stendur á hlaði og spyr Eirík að hvurt hann hafi engan mann séð. Eiríkur segir nei. „Ja, þú mátt nú ekki ljúga að mér og er ég hræddur um þú hafir einhvurn séð.“ Þá segir Eiríkur að hann hafi séð mann koma ofan af fjallinu, „sá var í gráum frakka með hatt og parruk og lagðist hann niður í grafninginn hérna fyrir utan túnið og þar liggur hann.“ „Já, já, það grunaði mig,“ sagði Páll; gekk hann svo inn og lagðist upp í rúm sitt og lá það sem eftir var af þessum degi og svo nóttina og daginn eftir fram undir kvöld; þá settist hann upp og klæddi sig í allan sinn fatnað og batt upp nýja leðurskó, segir þá við fólkið að það skuli kveikja ljós í baðstofunni strax þegar fer að dimma, og hvað sem á gengi þá skuli enginn úr rekkju rísa fyrr en bjartur dagur sé kominn, því ef af því sé brotið þá ríði það á sínu lífi. Fólkið kveður já við. Sjálfur settist Páll framan á pallstokkinn með Grallara í hönd og fór að syngja sálma, en fólkið lagðist í rúm þegar búið var að kveikja. En þegar komið var af dagsetri heyrir fólkið að hrundið var upp bæjarhurðinni (sem þó var lokuð) og komið inn ganginn. Hendir þá Páll Grallaranum og stekkur ofan. Gjörist nú heldur ókyrrt í bænum; var eins og hann væri á reiðuskjálfi; gekk þessi aðgangur alla nóttina og þótti fólkinu ærið um að vera, en enginn þorði upp að líta, þar til undir dag að fólkið heyrir á hlaðinu dynk mikinn og heldur sjálfsagt að nú hafi Páll verið felldur. En þegar lítið er farið að birta kemur Páll þá inn og býður fólkinu góðan dag. Vóru þá rifin af honum fötin og hann sjálfur víða blár og blóðrisa. Fólkið spyr hvursu gengið hafi með þeim glíman. Páll segir að hann hafi loksins getað komið honum niður rétt fyrir daginn. Fólkið segir: „Hvað gjörðirðu þá við hann?“ Páll sagði: „Ég skipaði honum að brenna kirkjuna á Hofi.“ „Því gjörðirðu það?“ sagði fólkið. Páll sagði: „Ég gjörði það í hefnd fyrir það að honum var útdeilt í kirkjunni áður en [hann] var sendur af stað.“ Enda brann kirkjan þessa sömu tíma.

Nú frétta þeir er drauginn sendu hvursu farið hafði með drauginn. Þeir segja að það sé illt ef að hann skuli ekki fá annan til að reyna við. Síðan sendu þeir honum annan draug. Það var með undarlegum hætti að hann sótti aldrei að Páli nema sofandi og því gat hann aldrei við hann reynt, en kvaðst þó mundi óhræddur við hann ef hann hefði mátt sjá hann. En Eiríkur stjúpsonur hans og aðrir sáu hann.

Pétur hét sonur Páls. Eitt sinn fór Páll um Eyvindarárdali; kom þá á hann illveður og varð hann þá úti hvurt sem draugurinn hefur flýtt fyrir með veðrunum. Þegar þetta bar til tíðinda þá var Eiríkur vinnumaður á Valþjófsstað og svaf í skála og fleiri kallmenn. Eina nótt vaknar hann og sér hvar fylgidraugur stjúpa hans situr á kistu fyrir neðan rúmstokkinn. Eiríki varð hálfhverft, en segir þó: „Það er ekki sem þú ætlar, að Páll Pétursson átti aðra nærskyldari eftir sig en mig, og er þér bezt að fylgja þeim.“ Með það stökk hann ofan úr rúminu allsber, en draugurinn stökk út um dyr og Eiríkur á eftir. Þeir sem í skálanum vóru vöknuðu og hlupu út litlu síðar en Eiríkur; sjá þeir þá að hann kemur neðan fyrir tún og þegar þeir fundust sagði Eiríkur að þeir hefði ekki átt að forvitnast um sig, því hefði hann ekki verið skilinn við drauginn þegar þeir komu þá hefði það riðið á sínu lífi. Ekki varð Eiríkur var við draugsa framar.

Endar svo þessa sögu.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 380–381.

© Tim Stridmann