Silfrastaða-Grímur

Á Silfrastöðum í Skagafirði bjó forðum ríkur bóndi sem Grímur hét. Hann átti börn tvö sem hétu Grímur og Silfrún. Þeim systkinum var vel saman. Það var eitt sumar að þeir feðgar riðu vestur á Skagaströnd erinda sinna. Stóð þar uppi knör einn við Blönduós. Í ferð þessari fékk Grímur yngri fáleika mikla svo að þegar hann kom heim var hann ekki mönnum sinnandi, og fékk enginn að vita hvað honum þókti. Gekk þá Silfrún systir hans á hann um þetta. Segir hann henni þá að undireins og hann hafi séð skipið hafi sig langað svo mikið til að eignast það og fara í siglingar að hann hafi síðan öngva glaða stund lifað fyrir þessari eftirlöngun. Silfrún fer nú til föður síns og segir honum frá og biður hann fyrir alla muni að kaupa skipið handa Grími og fá honum farareyri. Bregður nú eldri Grímur skjótt við, kaupir skipið og fær syni sínum næg fararefni. Ræður nú Grímur yngri sér fjóra háseta og býst á stað. Nú kemur til að taka vatn. Lætur hann þá taka vatn í eina ámu, og héldu hásetar það mundi skammt hrökkva og vildu taka meira, en Grímur kvaðst ekki vilja meira vatn héðan, heldur ætlaði hann að taka hitt við Langanes. Varð nú þetta að vera eins og hann vildi.

Nú sigla þeir á stað og að Langanesi. Lætur þá Grímur alla háseta fara á skipsbátnum í land að sækja vatn, en er sjálfur eftir á skipinu. En er þeir voru komnir að landi vindur Grímur upp segl og siglir aleinn í haf, og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur að einni ey, leggst þar við akker, brýtur annan botninn úr vatnsámunni og fer í henni í land. Gengur hann nú unz hann hittir mann sem stóð yfir fé. Grímur spyr þenna mann að nafni, en hann kvaðst Grímur heita Grímsson og eiga heima skammt þar frá. Býður hann nú Silfrastaða-Grími í glímu. Glíma þeir nokkra stund og eru svo jafnir, að hvorugur vinnur neinn bug á öðrum. Hætta þeir nú, og býður heima-Grímur nafna sínum heim, að vera þar um nóttina. Fara þeir nú heim og inn. Segir þá gamli Grímur við son sinn: „Með hvað kemurðu nú?“ „Það er maður sem ég ætlaði að lofa að vera í nótt,“ segir yngri Grímur. „Svo mun verða að vera, en lítið gott mun mér standa af Silfrastaða-Grími.“ Verður nú Silfrastaða-Grímur þarna um veturinn og stendur yfir fé með nafna sínum. Á aðfangadaginn fyrir jól kemur til þeirra í hríðinni kvenmaður fremur stórskorin með járnfesti utan um sig og segir: „Hún Gyða í Gyðuhólum býður Silfrastaða-Grími til jólaveizlu,“ og þegar hún hafði þetta sagt er kippt í járnfestina svo hún hörfar til baka og hverfur þeim. Nú halda þeir heim með féð og segja gamla Grími. „Þá mun koma til okkar feðga að fylgja þér,“ segir hann. Segir hann nú Silfrastaða-Grími að Gyða sé tröllkona sem búi í hellir einum þar ekki mjög langt burt, karl hennar sé lagztur í kör, en hún eigi tvo syni og eina dóttur. Hafi hún heillað Silfrastaða-Grím burt af Íslandi til að ná honum handa dóttur sinni, „og skulum við nú allir fara og sjá hvernig fer“. Nú fara þeir allir og finna hellirinn og ganga inn. „Ég sé hér eru komnir fleiri en boðnir eru,“ segir Gyða, „en veriði samt allir velkomnir.“ Nú sitja þeir allir veizluna, en í veizlulokin er farið í hnútukast. Tekst þá svo óheppilega til að hnúta sem Grímur karlsson sendi lenti í hausnum á syni Gyðu svo hann féll dauður niður. Varð þá Gyða reið og óð með sverð sitt að Grími, en í sama bili hjó gamli Grímur á handlegg henni svo af tók, greip svo upp sverð hennar og hjó þar með af henni höfuðið. Lýkur þessum leik svo að þeir Grímur drepa tröllin öll og brenna búkana á björtu báli; kanna síðan hellirinn og finna þar afhús eitt fullt af gulli og gersemum, og flytja þeir þetta allt heim til sín um veturinn.

Nú líður veturinn og fer nú Silfrastaða-Grím að fýsa heim, en lætur þó lítt á bera. Eitt sinn um vorið kemur gamli Grímur að máli við hann og segir: „Veit ég það að þig er nú farið að langa heim, enda mun þín nú við þurfa heima. Nú er upp komin sú fyrsta fjárpest sem komið hefir á Ísland, í féð á Silfrastöðum, en henni er svo varið að Skeljungur fjármaður föður þíns er nú dauður og afturgenginn og er lagztur á féð þar og farinn að drepa það, og er engum manni unnt að gæta þess. Nú hefi ég ferðbúið skip þitt og skal Grímur sonur minn fylgja þér. Skuluð þið nú gera fóstbræðralag, og skaltu fara á Silfrastaði og sjá um kaupskap ykkar, en hann skal árlega flytja vörur ykkar milli landa. Hér er húð ein og skaltu þegar þú kemur heim, bjóðast til að vakta féð. Skaltu þá hafa þessa húð ofan á þér og muntu ná sigri yfir Skeljungi. Hér eru líka bönd sem þú skalt binda Skeljung með meðan þú fer heim og sækir eld til að brenna hann.“

Nú leggja þeir fóstbræður Grímarnir í haf. Gefur þeim vel byr og lenda skipi sínu í Kolkuós. Ríður Grímur nú þegar heim til Silfrastaða og hefir með sér húðina og böndin. Er honum þar vel fagnað, en fremur eru þau dauf faðir hans og systir, og spyr hann hvað því valdi. Segja þau honum þá frá hversu komið var um Skeljung og hver vandræði voru um fjárdráp hans. Grímur býðst til að vakta féð fyrir það fyrsta um nóttina, hvernig sem svo færi. Þeim þókti þetta fremur hætta fyrir hann; varð þó að vera sem hann vildi. Situr hann nú féð á kvíunum, leggur sig út af og breiðir ofan yfir sig húðina og hefir böndin á sér. Liggur hann þar nokkra stund. Kemur þá Skeljungur, þrífur til húðarinnar og verða þar sviptingar nokkrar. Stendur þá Grímur upp og færa þeir leikinn að stórum steini sem þar var á kvíabólinu, og fellir Grímur Skeljung um steininn, tekur síðan böndin og bindur hann við steininn, fer svo heim og sækir eld til að brenna Skeljung. En á meðan hafði Skeljungur dregið steininn suður á stekk. Brennir Grímur hann þar og fleygir öskunni í ána. Urðu úr henni þrír svartir silungar. Veiddist einn þeirra löngu seinna og var skorinn í marga smáparta, en partarnir skriðu saman aftur.

Eftir þetta fara þeir Grímur að selja vöru sína, og gengur það allt að óskum. Um haustið fær Grímur sér kvonfang, kvenkost þann bezta sem þá var í Norðurlandi, frá Hofi í Skagafjarðardölum. Um veturinn deyr Grímur faðir hans, og tekur hann þá við búi á Silfrastöðum. Haust næst eftir giftir hann Silfrúnu systur sína merkum bónda á Hólum í Hjaltadal. Á hverju sumri kom Grímur fóstbróðir hans með vörur í Kolkuós. Græddist Grími á Silfrastöðum stórfé. Bjó hann þar til ellidaga og þókti jafnan vera hinn gildasti rausnarbóndi í öllum Skagafirði.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann