Spilamennska á Stórhólfshvoli

Einhverju sinni andaðist vinnumaður að Stórólfshvoli austur ekki alls fyrir löngu, skömmu fyrir jól, og var hann jarðsettur, eins og lög gera ráð fyrir. Svo bar til, að prestur var ekki heima jólanóttina, og fór fólkið út í kirkju til þess að spila. Vinnukona var þar á bænum, ung og gáskafull. Um leið og hún gekk út til kirkjunnar, rak hún fótinn í leiði vinnumannsins og sagði: „Komdu nú og spilaðu við okkur, greyið mitt, ef þú getur.“ Þegar fólkið hafði spilað stundarkorn, kom moldargusa í kirkjuhurðina, og gekk svo nokkra stund. Fólkið varð hrætt, en ekki tók betra við, því að svipur vinnumannsins kom inn á kirkjugólfið, og sáu hann allir, sem við voru staddir. Fólkið hljóp þá út í ósköpum, og komust allir óskemmdir út úr kirkjunni nema vinnukonan; hún varð vitskert og var það alla ævi upp frá því. Sagt er, að hún hafi lifað fram um 1880.

OCR: Tim Stridmann

© Tim Stridmann