Það er í munnmælum haft að Heiðarhús sem eru spölkorn fyri ofan Inngarðinn hafi í fornöld verið mesti stórbær svo að þar væru þrjátíu hurðir á hjörum, en hafi aflagt fyrir reimleika sakir. Var sá draugur nefndur Heiðarhúsadraugur. Skyldi einn þar búandi maurapúki peningaauðugur hafa gengið aftur til skildinganna. Þókti þar ekki viðvært lengi fram eftir jafnvel þó þar séu tún hin beztu.
Sigurður Alexíusson og Svanhildur kona hans buggu fyrst í Vatnagarði og svo í Heiðarhúsum hér um 1805. Svanhildur var talin forneskjukerling. Sigurður reri þar í Garðinum sem fleiri og kom oft seint heim á kvöldin frá sjónum. Einu sinni seint um kvöld er Svanhildur sat inni, en Sigurður var ekki kominn frá sjónum, var kallað á gluggann hjá henni: „Ég vil mitt.“ Þá svaraði Svanhildur: „Taktu þitt og farð’ í burtu.“ Svo fóru leikar að þeim þókti þar svo óskemmtilegt að þau fóru þaðan.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 348–349.