Barnshvarfið

Á Sandi1 bjó lengi sá maður sem Arnþór hét. Hann þótti á sinni tíð vera einhver hinn öruggasti kunnáttu- eða galdramaður og var hans oft leitað úr nálægum sveitum bæði að setja niður drauga og fleira. Og einu sinni vildi það til á Hólum í Laxárdal að þar hvarf barn fárra vetra og brátt var sent ofan til Arnþórs að spyrja hvar barnið væri niður komið. Arnþór fór síðan upp að Hólum og bað nú konan, móðir barnsins, hann að ná aftur barninu. Hann var þar svo um nóttina. Þar eru mjög fallegar klappir eða klettar rennsléttar framan og tignarlegar. Arnþór var þar svo um nóttina, en um morguninn spyr móðirin eftir barninu; hann sagðist vita hvar barnið væri, en það væri ekki til neins að ná því, því það væri svo heillað að það yrði aldrei mönnum sinnandi, en hún bað hann hvað sem gilti að ná barninu. Hann var þar svo aðra nóttina. En um morguninn segir hann konunni að barninu geti hann náð, en lifandi fáist það ekki; en hún kvaðst heldur vilja líkið fá heldur en það væri hjá álfum. Svo er hann þar þriðju nóttina og þá fór hann upp að klöppunum og heimtaði barnið fast, og þá brast sundur klöppin og kom kona þar út og bar barnið á handlegg sér. En er hann heimtaði barnið á ný sló hún því við bergið svo heilinn hraut, og kastaði svo líkinu til Arnþórs og það færði hann móðirinni og hún tók við því fegins hendi og launaði Arnþóri þarkomuna.


1 Sandur er út við sjó austan við Skjálfandafljót.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 595–596.

© Tim Stridmann