J. Heitingar og álög

Stundum eru það ummæli galdramanna eða þeirra sem fornir þykja í skapi er olla öðrum óhamingju og verða að áhrínsorðum engu síður en ákvæði kraftaskálda. Ummælum sýnist mega skipta í tvennt: heitingar (formælingar og forbænir) og álög. En það er kallað „að heitast“ og „heiting“ þegar menn biðja í heift hver öðrum mikilla bölbæna og orðatiltækin „að verða fyrir álögum“, „vera í álögum“ eða „undir álögum“ eru höfð um allt það hvort heldur eru menn eða hlutir sem háð er áhrínsorðum annara; einnig eru þau höfð um þá menn sem hafa orðið að skipta hömum fyrir ummæli sem alkunnugt er úr fornum sögum. Hér skal nú getið nokkurra heitinga og álaga.

Blótbjörk

Framan undir Lyngdalsheiði í Grímsnesi stendur bær er Björk heitir. En á heiðinni fyrir austan bæinn stendur eyðibær er Blótbjörk er kallaður; markar þar enn í dag fyrir túngarði og öllum útihúsum, en bæjarhús sjást eigi. Er svo sagt að eina jólanótt fóru allir til aftansöngs nema tvær kerlingar og drengur er heima voru. En er fólkið var komið til kirkjunnar út að Klausturhólum (er utar stendur undir heiðinni) fóru kerlingarnar að deila út af því að báðar vildu vera matseljur; tók þeim bráðum að sinnast og tóku mjög að blóta. Drengnum fór að ofbjóða og flýr út í fjósið. Dvaldi hann þar um hríð, þangað til fjósið fór að skjálfa. Leitar hann þá á dyr og linnir eigi hlaupum fyrr en hann er kominn út að Klausturhólum og segir fólki frá. En er að bænum var komið sást eigi neitt eftir og er þar síðan svart flag þann dag í dag, en bærinn var færður utar undir heiðina.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 457.

© Tim Stridmann