Bókin í Vogsósakirkjugarði

Þegar síra Eiríkur var nýkominn að Vogsósum fór hann í húsvitjun á einn bæ í sókninni. Þar var á bænum gamall maður blindur sem Þrándur hét; hann vissi margt og kunni mörg forn vísindi. Síra Eiríkur gefur sig á tal við hann og segir: „Ég veit það er bók í Vogsósagarði, en veit ekki hvar hún er þar; annars mundi ég vera búinn að reyna að ná henni.“ Þrándur sagðist vera orðinn svo gamall og sjónlaus, en ef hann hefði verið eins upplýstur og hann þá mundi hann ekki hafa þurft að láta segja sér hvar hún væri, en hann segir ef hann vilji leiða sig út í garðinn hafmegin kirkjunnar þá skuli hann reyna að komast eftir hvar bókin sé. Prestur tók þá í hönd Þrándi og leiðir hann út í garðinn hafmegin kirkjunnar og tvístígur Þrándur fram með allri kirkjuhliðinni, og er hann stígur niður hægri fæti í einum stað segir karl ef bókin sé hér ekki undir þá viti hann ekki hvar hennar sé að leita. Síra Eiríkur setur á sig blettinn, leiðir karlinn aftur í burtu og þakkar honum fyrir og gleður hann fyrir.

Síðan gengur síra Eiríkur inn í kirkju og fer þar að þylja eitthvað fyrir munni sér einn og tekur til frá tuttugu árum til fjörutíu ára, og þá fara margir að koma inn í kirkjuna á þeim aldri, en prestur sér að enginn þeirra hefur neitt meðferðis og síðan vísar hann þeim út aftur. Síðan tekur prestur til frá fjörutíu árum til sextíu ára og koma þeir allir inn í kirkjuna úr kirkjugarðinum, en þeir hafa heldur ekkert meðferðis, og vísar hann þeim aftur til síns staðar. Síðan tekur hann til frá sextíu árum til níutíu ára og fara þeir allir að tínast inn í kirkjuna, en seinast kemur einhver mannskepna og prestur sér að hún hefur eitthvað undir hendinni. Hún færist inn að presti. Prestur grípur til og sér það er bók og nær í eitt blað, en hinn vildi ekki sleppa, og svo áttust þeir nokkra stund við svo bókin datt niður, en síra Eiríkur hélt á blaðinu. Maðurinn greip bókina og fór strax út með hana svo síra Eiríkur fékk aldrei nema þetta eina blað úr henni. Prestur sagði á eftir að af þessu eina blaði hefði hann haft meiri vísdóm en af öllum sínum lærdómi, en hann hélt að öll bókin — þó hann hefði fengið hana — þá hefði hún orðið sitt ofurefli.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 545.

© Tim Stridmann