Eiríkur borgar hestlán

Annað sinn gistu vermenn á Vogsósum og komu þar á laugardagskvöldi. Á sunnudagsmorguninn mælti Eiríkur prestur til þeirra: „Piltar mínir, vill nú enginn ykkar gjöra svo vel og ljá mér hest til að ríða út að Krýsuvík í dag og bíða á meðan?“ Þeim þótti það mikil töf og neita allir nema einn. Það var ungur maður. Þeir hlógu að honum og fóru burt að morgni og út að Krýsuvík. Prestur reið undan og mætti þeim á heimleiðinni, hélt áfram heim og þakkaði manninum hestlánið og bað hann vera í nótt, „en farðu strax á morgun og muntu fá gott veður og færð og komast út í Vík,1 en kom þú ekki að Krýsuvík.“ Maðurinn fór að ráðum hans og fékk gott veður, en heim að Krýsuvík var bylur að sjá. Maðurinn kom í Grindavík um kvöldið og reri næsta dag og annan og hinn þriðja. Að kvöldi þess dags komu félagar hans og höfðu teppzt í Krýsuvík þrjá daga í byl. En maðurinn hafði þá fiskað meir en hundrað.


1 Þ. e. Grindavík.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 551–552.

© Tim Stridmann