Guðrún hefur kona heitið og mun hafa verið ekkja er þessi frásaga gjörðist. Hún mun hafa búið einhvörstaðar suður við sjó, í Garðinum eða þar nálægt. Kort hét maður er búið hefur einhvörstaðar þar á Suðurnesjum; hann átti jörðina sem Guðrún bjó á. Guðrún var heldur fátæk en rík og þó ekki betri til útláta en efna. Kort var maður örlyndur og frjálslegur, nokkuð harður í lund, en fekk þó fremur gott orð. En Guðrún var almennt kölluð skaphörð og mjög óvinsæl.
Svo er sagt að hún hafi verið almennt nefnd Önundar-Gunna (en af hvaða Önundi hún hafi tekið það nafn eða hvört það hefur verið maður hennar vita menn ekki) og með því nafni er hún alþekkt. Svo fóru skipti þeirra Korts og Önundar-Gunnu að hún galt ekki með skilum eftir ábúðarjörð sína, en Kort þoldi það illa og svo kom loks að Kort tók með kappi jarðargjald sitt. Eitthvört sinn tók hann pott af Gunnu, en hún vildi ekki láta hann lausan, en þó er þess ekki getið að hún hafi viljað láta annað af hendi í hans stað; því tók Kort pottinn hvað sem Gunna sagði. En það fékk henni svo mikils að það dró henni snögglega til dauða.
Svo er sagt að þegar Gunna var grafin þá hafi hún sézt á gangi og verið að gægjast fram úr húsasundunum, og hafi hún þá ávarpað þá sem voru að taka gröfina með þessum orðum: „Ekki þarf djúpt að grafa því ekki á lengi að liggja.“ Erfisdrykkja skal hafa verið haldin eftir Gunnu og er svo sagt að Kort hafi verið einn meðal borðgestanna, en er fólk fór að fara vildu menn að Kort færi ekki einn, því menn hugðu Gunna mundi vilja vitja hans og er þó þess getið að Kort hafi verið hið mesta karlmenni. Varð þá Kort samferða einhvörjum boðsmanni þar til hann átti allskammt heim til sín; var þá komin dimma og bauð maðurinn honum að fylgja honum alla leið heim, en Kort vildi ekki. Kort kom eigi heim um nóttina, en að morgni var hans leitað. Sáust þá augljós merki til að Gunna hafi hitt hann þegar maðurinn var nýskilinn við hann. En það þóktust menn sjá að þau hefðu glímt fjarska lengi og loks fannst Kort dauður og mjög illa útleikinn.
Eftir þetta gerði Gunna ýmsar óspektir svo eigi leið á löngu að maður var sendur til séra Eiríks á Vogsósum og skyldi hann biðja prest að sjá fyrir Gunnu. Prestur tók því vel og kvað nauðsyn til bera að ráða bót á slíku. Bað hann þá sendimann bíða litla stund, fór inn og kom innan skamms aftur; fekk hann þá sendimanni hvítan trefil langan og var pappírsmiði festur í annan endann. Sagði prestur svo fyrir að maðurinn skyldi rétta seðilinn að Gunnu; kvað hann Gunnu mundu við honum taka og skyldi hann síðan teyma hana á treflinum að hver þeim sem er á Reykjanesi og sleppa þar. Kvað hann eigi mundi meira við þurfa. Síðan fór sendimaður, fékk sér menn til fylgdar, færði Gunnu seðilinn og tók hún strax við, en mælti um leið og hún leit á: „Á helvíti átti ég von, en ekki á þessu.“ Var hún síðan leidd þangað sem ákveðið var; varð hún þar eftir æpandi og stökk einart kringum hverinn, dró eftir sér trefilinn, en hélt á seðlinum og komst aldrei burt þaðan, og þóktust margir menn sjá hana þannig á hlaupum kringum hverinn lengi síðan og sumir bættu því við að hún væri búin að ganga sig upp að knjánum.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 510–511.