Einu sinni var einhver maður fluttur á alþing sem átti að líflátast fyrir einhver brot sín, en þegar hann var kominn á þingið slapp hann frá þeim sem áttu að passa hann og hann heldur áfram eins og fætur toguðu allt að Vogsósum og hittir prest úti og heilsar honum. Prestur tekur kveðju hans og segir: „Hvað er þér á höndum barnið mitt (því það var máltæki síra Eiríks) og hvert ætlarðu?“ Hann segir presti að hann hafi verið fluttur á alþing og þar hafi átt að lífláta sig fyrir það sem sér hafi orðið á, en hann hafi sloppið og hafi hann hlaupið hingað, og biður hann um að hjálpa sér. Síra Eiríkur segir: „Það held ég geti ekki barnið mitt. Þeir koma hingað og taka þig. Þér væri bezt að fara burtu.“ „Þeir ná mér,“ segir hann, „ég verð hér heldur og læt þá taka mig hér.“ „Ég held ég geti ekki hjálpað þér barnið mitt, en samt geturðu tekið hest hérna fyrir ofan garðinn. Hann er magur, en ég hefi ekki aðra hesta heima,“ — og tekur spotta upp úr vasa sínum og segir honum að binda hann upp í hestinn, en leggur ríkt á við hann að keyra aldrei hestinn og lofa honum að ráða og ekki skuli hann kæra sig um þó honum finnist hann fara hægt, og aldrei megi hann líta aftur, hesturinn sé magur og þeir muni kannske ekki lengi verða að ná honum á gæðingum sínum. Hann skuli ríða bæði nótt og dag meðan hann geti vakað, en þegar hann geti ómögulega lengur vakað þá skuli hann leysa út úr hestinum og leggja spottann þar hjá hestinum, og ef hann sleppi undan þeim og komist af skuli hann skrifa sér aftur til og skrifa sig ekki nema tóman Eirík og ef hann sleppi nú úr þessum háska þá skuli hann varast að gjöra nokkurn tíma aftur það verk fyrir hvað hann komist undir mannahendur, og lofar hann öllu þessu.
Síðan fer maðurinn upp fyrir garð og sér þar gráan hest ósköp magran og ótútlegan og er hann í efa um hvort hann skuli taka hann. Samt gjörir hann það og bindur upp í hann og fer á bak. Hesturinn fer á stað, en honum finnst hann ekki hreyfast. Samt hugsar hann sér ekki að keyra hann, en eftir að hann er búinn að ríða honum nokkra stund verður hesturinn hraðgengari. Maðurinn veit ekkert hvert hann fer og nú ríður hann í mörg dægur, en loksins fer manninn að syfja og getur ómögulega haldið sér uppi og fer því af baki, en þá er hann svo af sér kominn að hann sofnar strax. Þá dreymir hann síra Eirík og skipar hann honum að leysa út úr hestinum. Hann vaknar og gjörir það. Síðan sofnar hann aftur og sefur mjög lengi, en þegar hann vaknar finnur hann hvergi hestinn eða spottann, en sér þar liggja æfar gamlan hrosskjálka. Nú veit hann ekkert hvert hann er kominn, en eftir lítinn tíma finnur hann þar mann yfir fé. Hann spyr hann að hvaða sveit þetta sé. Hann segir honum að bærinn sem hann eigi heima á sé nyrzt á Langanesi.
Nú víkur sögunni aftur að Vogsósum. Eftir að sakamaðurinn er nýfarinn af stað koma þeir fljúgandi, sem misstu hann, að leita hans og spyrja síra Eirík hvort hann hafi ekki komið hingað. Hann segir hann hafi komið hingað og tekið bezta hestinn sinn og flogið á honum í burtu og skammar þá nú fyrir hvað illa þeir passi fanga sína og ef þeir borgi sér ekki hestinn skuli hann klaga þá og koma þeim í ólukku. Þeir spyrja hvort hann muni vera langt kominn. Það segist hann ekki vita, en fyrir nokkurri stundu sé hann farinn og geti verið þeir nái honum. Þeir fara á stað og leita hans í mestu ósköpum. Þeir vita ekkert hvert þeir fara og þekkja sig ekki fyrri aftur en þeir koma á Þingvelli. Þeir leggja aftur á stað ofan að Vogsósum og finna síra Eirík. Hann spyr þá að hvort þeir hafi ekki náð fanganum. Þeir segjast ekki hafa náð honum eða fundið hann og biðja hann nú um liðveizlu, en hann segist ekkert geti hjálpað þeim fyrst þeir hafi ekki passað fangann, en ef þeir borgi sér ekki strax hestinn skuli hann klaga þá og koma þeim í ólukku, en þeir þora ekki annað en borga honum hestinn.
Þegar maðurinn er kominn norður á Langanes skrifar hann síra Eiríki til og segir honum hvernig sér hafi gengið, og fær hann bréfið eftir fimm ár. Síra Eiríkur skrifar manninum aftur og sendir honum hestverðið.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.
Текст с сайта is.wikisource.org