Einu sinni komu lestamenn að Vogsósum. Þeir komu úr kaupstað, en gátu ei komizt áfram því ósinn var ófær svo þeir urðu að taka af um miðjan dag. Eiríki þótti góður sopinn. Hann kemur til ferðamannanna og spyr hvort þeir geti ekki gefið sér hressingu. Þeir segja allir nei nema einn; hann tekur upp hjá sér flösku og gefur presti að súpa á. Þá segir Eiríkur við hann: „Þú skalt taka af rétt við ósinn, fara þér seint og spretta ekki af. En þegar hinir eru búnir að spretta af og hefta hestana þá skaltu láta upp í snatri og skal ég þá reyna að koma þér yfir um.“
Maðurinn gjörir þetta. Og þegar hann er að enda við að láta upp kemur Eiríkur því hann hafði farið heim á milli. Fer hann þá undan manninum og segir að hann skuli koma á eftir sér. Þeir koma þá að ósnum þar sem snjóbrú er á honum. Eiríkur segir að óhætt muni að fara snjóbrúna þó hún sé ekki þykk. Fer hann á undan, en maðurinn á eftir, og gekk þeim vel yfir. Snýr þá Eiríkur aftur. Þegar hinir ferðamennirnir sáu þetta taka þeir hestana, leggja á og láta upp og ætla að nota snjóbrúna. En þegar þeir koma að ósnum er þar engin snjóbrú og ósinn bráðófær eins og áður svo þeir máttu snúa við aftur, taka ofan, spretta af, flytja hestana og hefta, reisa tjald og liggja kyrrir.
En fyrir þá sök gjörði Eiríkur þeim þenna grikk að hann vissi að þeir neituðu sér um brennivín af nízku, en ekki af getuleysi.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 550.