Tyrkjar koma í Krýsuvík

Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt: „Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“ Prestur mælti: „Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“ Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra: „Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“ Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn nú (1859).

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 562.

© Tim Stridmann