Feigð

Séra Páll á Hnappsstöðum hefir sagt mér frá því um biskup einn, Hannes Finnsson, minnir mig, eða Finn Jónsson, að hann lá í tjaldi við á eina (Þjórsá?) fyrir suðaustan. Var þá áin því nær ófær og í vexti. Með biskupi voru tveir menn. Þeir verða varir um að maður ríður að ánni og ætlar yfir hana. Biskup bað þá aftra manninum, því áin væri ófær. Gerðu þeir svo og hafa manninn hálfnauðugan með sér heim í tjald. Litlu seinna verður honum illt. Er nú sókt vatn í ána handa honum að drekka. Batnaði honum ekki þar við, heldur dró af honum svo hann dó að lítilli stundu liðinni. Sagðist þá biskup hafa séð á honum feigðina og ætlað að sporna við því með því að aftra honum að fara út á ána ófæra.1


1 Líka frásögn hefi ég heyrt úr Skagafirði sagða um Skúla fógeta að hann hafi með líkum atvikum aftrað manni að ríða yfir Héraðsvötnin í Skagafirði og maðurinn rétt á eftir dáið. – J. N.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 434.

© Tim Stridmann