Galdrafélag í Hólaskóla

Af hinum mörgu galdrasögum sem gengið hafa á fyrri öldum um skólasveina og presta hér á landi, bæði þá úr Hólaskóla1 og úr Skálholtsskóla2, hefur án efa sú trú komið upp að skólapiltar hafi numið galdur í skólunum, og hafa þau dæmi verið dregin til þess sem síðar verður á vikið um séra Þorkel að hann hafi samið galdrabókina Gráskinnu sem var í Hólaskóla og piltar þar hafi lært á hver sem þá hefur samið hina Gráskinnuna sem fylgdi Skálholtsskóla. Þessi trú um galdranám í skólunum hefur haldizt lengi fram eftir öldum sem sjá má af því að svo margir klerkar voru bornir galdri eftir árbókum landsins og eins af því að það var ekki sjaldgæft að skólapiltar væru að fást við kukl, stafi og særingaformála, eins og til dæmis þeir Einar Guðmundsson og Bjarni Bjarnason sem urðu þess vegna að yfirgefa Skálholtsskóla 1664. Sama trúin hefur haldizt við skólann á Hólum, að minnsta kosti fram á 18. öld, sem bæði má sjá af sögunni um Galdra-Loft og af öðru atviki til á dögum Steins biskups á Hólum. Skólapiltar höfðu þá enn gengið í leynilegt galdrafélag og héldu samkomur sínar í rökkrinu. Þeir af piltum sem í félag þetta gengu áttu allir að raka skegg sitt. Einu sinni þegar þeir voru á galdrastefnu kom Steinn biskup í herbergið sama því hann hafði komizt að þessum samtökum pilta og því með að þeir höfðu gjört það að lögum að raka sig. Kvað biskup þá vísu þessa:

„Hér kemur maður og heitir Steinn,
hefur skegg á grönum;
hann mun verða eftir einn,
ekki’ er rakað af hönum.“

Við þetta urðu skólapiltar bæði sneyptir og skelkaðir er biskup kom svona óvörum inn á þá; slitu þeir þegar samkomunni og hættu galdranámi.


1 T. d. Hálfdán prest á Felli, Árna prest Jónsson á Hofi á Skagaströnd, sem flýði land fyrir fjölkynngisorð, Árb. Esp. VII, 95. bls.

2 T. d. Loft Jósepsson, kirkjuprest í Skálholti fyrir 1670, Árna prest Loftsson í Gerði um 1679, Jón prest Daðason í Arnarbæli og Vogsósa-Eirík. Sbr. Árb. Esp. VII, 60.–1., 90. og IX. 32. bls.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 434.

© Tim Stridmann