Hálfdan prestur og Ólöf í Lónkoti

Í Lónkoti í sókn Hálfdanar prests á Felli bjó kerling ein gömul sem Ólöf hét. Hún var fjölkunnug mjög og áttu þau Hálfdan margar brösur saman. Eitt haust reri Hálfdan til fiskjar með mönnum sínum og drógu þeir flyðru eina stóra. Þá var harka mikil og var hásetum kalt. Þá segir prestur þegar þeir kvörtuðu um kuldann: „Hvað ætli þið vilduð gefa mér til þess piltar að draga nú heitan blóðmörskepp til að hressa ykkur á?“ Þeir sögðu að hann mundi ekki geta það þó hann vildi. En litlu síðar kemur prestur með sjóðheitan blóðmörskepp á önglinum. Snæddu þá allir hásetarnir og þótti vænt um. En á meðan hvarf flyðran úr skipinu. Þá segir Hálfdan prestur: „Hafa vill kerling nokkuð fyrir snúð sinn.“ Hálfdan seiddi keppinn frá Ólöfu, en hún aftur flyðruna frá honum.1

Einu sinni átti Hálfdan prestur úti sæti mikið. Bannar hann þá heimamönnum strengilega að koma út um nóttina og segir þar mikið við liggja. Lætur hann síðan Ólöfu kerlingu binda allt sætið um nóttina, en lét sjálfur niður heyið. Kerling sagði við hverja sátu sem hún batt: „Upp, upp og heim í tóft til Hálfdanar prests!“ Flugu þá sáturnar til Hálfdanar, en hann tók við og sagði: „Niður — eins og þú átt að liggja!“ Þetta létu þau ganga alla nóttina þangað til heyið var búið. Sagt er að ein kerling hafi komið út um nóttina og orðið vitstola.


1 Gísli Konráðsson kallar hana Hildigunni og segir hún væri systir séra Hálfdanar.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 500–501.

© Tim Stridmann