Tröllin í Tindastól

Einu sinni bjó maður nokkur norður í Skagafirði. Hvarf kona hans frá honum og vissi enginn hvað af henni varð; var hennar þó leitað víða. Loksins fór bóndi til Hálfdans prests í Felli og beiddi hann um ásjá. „Sýna má ég þér konu þína,“ mælti prestur, „en ekki get ég náð henni þaðan sem hún er niður komin og ertu þá litlu bættari.“ Bóndi kvað sér myndi þá verða hughægra ef hann fengi að sjá hana. Prestur tók hann þá með sér með því skilyrði að hann beiddi aldrei fyrir sér meðan þeir væru á leið saman, en bóndi áskildi sér aftur að hann mætti vera kyrr hjá konu sinni ef hann vildi. Prestur fór á bak gráum hesti og lét bónda sitja að baki sínu, hleypti til sunds út á Skagafjörð. Sóttist sundið skjótt. Einu sinni tók hesturinn kaf venju fremur. Æpti bóndinn þá, en prestur hastaði á hann og sagði: „Þegiðu, það skriplaði á skötu.“ Héldu þeir þá áfram þangað til þeir komu upp undir Tindastól. Sá bóndi að fjallið var opið, voru mörg tröll þar inni og þar þekkti bóndi konu sína. Var hún orðin mesta tröll. Hafði hún verið heilluð þangað. Prestur spurði bónda hvort hann vildi komast til konu sinnar, en hann kvað nei við og bað prest fyrir hvern mun að fara þaðan sem fyrst. Lét prestur það eftir honum og farnaðist þeim vel. Er þá ekki annars getið en bóndi yrði konu sinni afhuga.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 535.

© Tim Stridmann