C. Forspár

Þriðja vitrunargáfan er forspá og er hún í því fólgin að þeir sem sú gáfa er gefin geta séð furðulangt fram í ókomna tímann og sagt fyrir óorðna hluti; heita þeir því forspáir menn. Þó þessi hæfilegleiki hafi ekki heldur en hinir tveir nýnefndu verið almennur lítur eigi að síður svo út sem hann hafi verið miklu tíðari hér á landi að fornu fari en hann er nú á dögum þar sem bæði Gestur Oddleifsson, Njáll og Snorri goði og margir fleiri eru taldir forspáir menn, og voru þó allir uppi undir eins. Nú á dögum vita menn varla af nokkrum forspáum manni að segja því allt er það annað mál en meðfæddur hæfilegleiki þó menn taki enn mark á ýmsu er menn ætla að ráða megi af hvernig það eða það fyrirtæki muni heppnast eða hverju fram vindi. Þannig hefur það þótt góðsviti ef maður dettur þegar maður fer að heiman, en illsviti ef maður dettur heim í leið, eins og orðshátturinn segir: „Fall er fararheill frá bæ, en ekki að.“ Eins þykir það fyrirboði fyrir því að maður reiðist ef mann klæjar (snuggar) nefið, ef hann klæjar augun veit það á grát, ef hljómur er fyrir eyrum manns (klukknahljóð) boðar það að maður heyri mannslát innan skamms. En það er bæði að það yrði oflangt og ætti ekki heldur við að telja hér upp allt þess kyns sem tekið hefur verið mark á, bæði á manni sjálfum, dýrum, lofti og ýmsum dögum ársins, sem boði veðurlag fyrir um lengri eða skemmri tíma, enda verður sumt af því talið í náttúrusögum, en flest í kreddum, og eru það fyrirboðar, en ekki forspár. En þótt nú sé orðið fátt um forspáa menn1 er allt að einu ekki svo að láta að ekki séu til sögur um þá frá fyrri öldum eftir að þeir Njáll og Gestur liðu undir lok þó ég telji ekki með þeim mönnum nafna minn Krukk sem ekki hafði heldur spásagnargáfu sína af meðfæddum hæfilegleika; og skal hér nú segja fáein dæmi af slíkum mönnum.

Illugi smiður

Það er sagt um Illuga þenna sem var kallaður smiður af því hann smíðaði allt sem smíða þurfti í Skálholti á dögum Finns biskups og þar að auki mörg skip að hann hafi sagt fyrir um þau hvernig þau mundu lánast. Illugi smíðaði og skip fyrir Magnús lögmann Ólafsson á Meðalfelli; var það eitt hið þægasta skip og hægasta. Þegar hann hafði lokið við það sagði hann: „Það verður mönnunum að kenna ef þetta skip ferst á sjó og þó mun það farast.“ Einn dag átti að fara með flutning á því suður í Reykjavík; en þá varð því með engu móti ýtt fyrr en mannsöfnuður var gerður að því. Gekk það þá seinast svo hart fram að varla varð stöðvað. Var svo farið á stað með farminn, en aldrei spurðist til þess skips síðan.

Illugi vildi ekki smíða skip úr öðrum við en hann hafði sjálfur valið. Einu sinni átti hann að smíða skip úr vönduðum við, eikarvið. En þegar hann leit á efnið sagði hann: „Ekki vil ég blóðeik þessa“ — og var ófáanlegur til að smíða úr því efni. Þá var fenginn til annar smiður og smíðaði hann gott skip og traust úr efninu sama, en það fórst í fyrsta róðri. — Þegar Illugi hafði lokið við seinasta skipið sem hann smíðaði er sagt hann hafi sagt: „Þar hef ég smíðað manndrápsbolla enda er ég nú feigur.“


1 Nú segja menn þó að „sig óri (eða ói) fyrir“ því eða því eða „sig smjúgi“ það eða það.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 399–400.

© Tim Stridmann