Sæmundur fróði fær Oddann

Þegar þeir Sæmundur, Kálfur og Hálfdan komu úr Svartaskóla var Oddinn laus og báðu þeir þá allir kónginn að veita sér hann. Kóngurinn vissi dável við hverja hann átti og segir að sá þeirra skuli hafa Oddann sem fljótastur verði að komast þangað. Fer þá Sæmundur undireins og kallar á kölska og segir: „Syntu nú með mig til Íslands, og ef þú kemur mér þar á land án þess að væta kjóllafið mitt í sjónum þá máttu eiga mig.“ Kölski gekk að þessu, brá sér í selslíki og fór með Sæmund á bakinu. En á leiðinni var Sæmundur alltaf að lesa í Saltaranum. Voru þeir eftir lítinn tíma komnir undir land á Íslandi. Þá slær Sæmundur Saltaranum í hausinn á selnum svo hann sökk, en Sæmundur fór í kaf og synti til lands. Með þessu varð kölski af kaupinu, en Sæmundur fékk Oddann.

Athugasemd. Hér hefur enn orðið heldur en ekki misgáningur á tímanum þar sem kóngur er látinn veita Oddann, en Ísland kom ekki undir Noregskóng fyrr en nálega 200 árum síðar (1262) og til þess tíma hafði kóngur alls ekkert vald til að skipa prestum brauð á Íslandi.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 478.

© Tim Stridmann