(Eptir handriti séra Skúla Gíslasonar á Stóranúpi.)
Sagt er, að séra Snorri á Húsafelli hafi verið kunnáttumaður, og gætti þess, þegar hann var í skóla. Skólabræður hans öfunduðu hann af afli hans og glímum og öðrum listum; svikust þeir eitt sinn að honum og gátu hrundið honum fram af hamri nokkrum ofan í Hvítá. En um kvöldið kom hann inn í skólann; urðu piltar þá hræddir og héldu hann væri aptur geinginn, en hann kastaði gamanyrðum upp á þá og þakkaði þeim fyrir seinast. Hann var feinginn til að gjörast prestur í Aðalvík, því bændur þar vestra voru fjölkunnugir og létu presta sína illa, sökum þess þeir settu ofan í við þá fyrir galdrana. Sumir bændur voru svo fornir í skapi að þeir sóktu hvorki kirkju, né helgar tíðir; komu þeir saman að Hornbjargi og afleysti þar hverjir aðra einu sinni á ári. Voru það þá skriptamál þeirra: „Eg er eins og eg var í fyrra, og eingubetri.“ Margir vildu ekki heldur láta færa sig að kirkju andaða, eða hafa helgan saung yfir sér. Ef prestur þeirra vönduðu um þetta, drápu þeir þá með fjölkynngi. Séra Snorri tók þegar að semja siðu bænda, þegar hann kom vestur, en þeir brugðust illa við. Drápu þeir fénað fyrir presti og ásóktu sjálfan hann. En þar báru þeir ætíð lægri hlut, hvort sem kom til kunnáttu eða karlmennsku, enda gjörði hann stundum mótstöðumönnum sínum þær glettur, að hann hvolfdi undir þeim og bjargaði þeim svo, eða lét þá sitja í aflamissi. Hann kom öllum þeim sendíngum fyrir, er þeir sendu honum, svo þeir komust seinast í þrot með þær. Einn var verstur af mótstöðumönnum hans. Bóndi þessi var eitt sinn að smíðum niðri við sjó fyrir framan bæ sinn og prestur líka; risti bóndi þá rúnir á kefli, og fylgdi þeim sú náttúra, að hver, sem las, varð blindur. Lét hann það síðan reka upp, þar sem prestur var fyrir. Prestur varaðist ekki hrekk þennan, las rúnirnar og varð blindur, en þá greip hann til kveðskapur síns og kvað af sér blinduna. Síðan skóf hann allar rúnir af keflinu, fleygði því út og mælti: „Farðu til húsbónda þíns aptur og vertu bani hans, ef hann ætlar aptur að hafa þig til íls.“ Bóndi sá fljótt keflið, greip hann það og ætlaði nú að rista þær rúnir, er skyldu ríða presti að fullu. En hnífurinn rendi út af keflinu, og fyrir brjóst bónda, svo á kafi stóð; varð það hans bani. Þó lauk svo, að séra Snorri flúði að vestan að fáum árum liðnum, mest af því honum þókti viðurhluta mikið að iðka galdur, enda beitti hann honum aldrei síðan. Þókti Hornstrendíngum samt mikil eptirsjá í honum og létu presta sína betur síðan. Séra Snorri bannaði börnum sínum að láta heita eptir sér, þó brá eitt þeirra út af því og var það Snorri sá, er heingdi sig á Bessastöðum.
Hjálmar Jónsson nefnir helzt til Jón blóta og Þorgils, að í erjum hafi átt við séra Snorra. Hallvarður Hallsson á Horni þreytti og forneskju við prest. Frá Halli segir Hjálmar að hann hafi verið bannsúnginn í Skálholti af Finni biskupi fyrir galdur, (sem þó er ósönn sögusögn), en sama dag og bannsetníngin fór fram í Skálholti, horfði Hallur í gaupnir sér og kvað vísu:
„Margir nefna á Horni Hall,
hafi sá blendna trúna,
skrýtilegt er skrattaspjall
hjá Skálholts klerkum núna.“
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, safnað hefir Jón Árnason. Leipzig, að forlagi J. C. Hinrichs’s bókaverzlunar, 1862.
OCR: Tim Stridmann