Dísa leggur inn skreið

Dísa hafði tekið dreng til fósturs og alið hann upp. Hún hafði kennt honum margt í fornum fræðum enda var hann natinn við það nám og hnýsinn mjög um slíka hluti. Fór hann svo frá henni og reisti bú þar á Eyrarbakka er hann var orðinn fulltíða maður. Einhverju sinni fer Dísa í kaupstað út á Eyrarbakka og flytur skreið, að því er mönnum sýnist á fjórum hestum eða fimm, aðrir segja á fjórtán. En er hún kemur út undir kaupstaðinn mætir henni fóstursonur hennar og segir: „Hart reiðir þú á, fóstra.“ Hún svarar: „Haltu kjafti, of mikið hef ég kennt þér strákur.“ Síðan skilja þau og heldur hvort sinn veg. Dísa leggur inn skreiðina hjá Bakkakaupmanninum og er ekkert fundið að vöru hennar. En þegar fara á að flytja Stokkseyrarfiskinn út í skipið seinna um sumarið er hann allur orðinn að grjóti. Þóttust menn þá vita að Dísa hefði leikið þetta með fjölkynngi sinni, en kaupmaður treystist þó ekki að fá rétting mála þeirra af Dísu.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 566.

© Tim Stridmann