Markús var á Stokkseyri Bjarnason á Stokkseyri Skálholtsráðsmanns, deyði 1653, Sigurðsson[ar] á Stokkseyri Bjarnasonar Torfasonar í Klofa. Dóttir Markúsar var Þórdís og bjó hún á ættjörð sinni Stokkseyri og hefir án efa snemma haft orð á sér fyrir stórlyndi og fjandskap við þá er stigu á aðra þúfu en hún vildi. En víða kemur hún fram sem drengur góður við þá sem hún annaðhvort óttaðist eða gjörðu eða töluðu nærri skapi hennar.
Guðmundur Vest hét maður hennar, orðlagður skapstillingarmaður. Þegar þau sátu yfir máltíð á brúðarbekknum tekur Guðmundur tindisk af borðum, bögglar honum saman milli handa sinna og segir: „Svona á að fara með konurnar þegar þær eru baldstýrugar.“ Þá svarar Dísa því er síðan er að orðtæki haft eftir henni: „Margur segir: ef ég get.“
Aldrei hafði Guðmundur svarað henni að ráði þó að hún léti fárskap í frammi við hann sem aðra, heldur yfirbugað hana — í það og það skiptið — með ýmsu. Einu sinni er hún æddi sem mest gekk hann að smábandsvef er uppi var og skar ofan sundur í tveim stöðum. Annað skipti fékk hann hana ekki til að gjöra kunningja sínum gott. Gekk hann þá upp fyrir bæ að brúnum hesti er henni þókti mjög vænt um og skar hann á háls; grét hún þá.
Einu sinni tók hann grænt nærfat er hún átti úr vönduðum dúk og skar sundur í pjötlur fyrir augum hennar. Einu sinni gekk hann að henni með opinn hnífinn, kastaði henni á grúfu og risti niðrúr henni. Eftir það hafði lengi verið hlé á ofsa hennar við hann.
Það er kallað að „rista niðrúr“, en er aldrei gjört nema á ógnarlegum skössum; þykir það voðalegasta smán: Þær eru lagðar á grúfu, tekið til við hálsklút og rist öll föt í einu niðrí gegnum fald og látið dreyra í þrem stöðum á baki; annars er það ekki kallað með skilum gjört. Sagt er þær batni flestar við aðferð þessa. Skilst mér þær verði yfir sig hræddar og þori ekki til við þá framar, heldren annað valdi að þær spekjast.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 578–579.