Halla sækir hvönn

Það var einhverju sinni að Halla hafði inni jólaboð mikið og hafði hún boðið til vinum sínum og kunningjum. Halla veitti stórmannlega og var hin kátasta. Segir hún gestum að kjósa sér hvað sem þeir girnist til sælgætis sér og skuli hún það allt saman veita þeim. Gestirnir hugsa sér til hreifings, að þeir skuli kjósa það sem Höllu yrði ekki svo auðfengið, og tilnefna þeir nýjar hvannir. Halla segir að víst muni þeir hafa ætlað að kjósa það sem ekki yrði auðfengið, en þó muni hún gjöra tilraun og verði þeir að bíða litla stund. Halla fer þá og kafar fram í Grænavatn og fram að stampi einum sem enginn veit botn á og síðan heitir Höllustampur; þar fer hún niður og er litla stund í burtu. Kemur hún upp aftur með bagga af grænum og nýjum hvannnjólum og færði gestum sínum. Hafa menn það fyrir satt að Halla hafi sókt hvannirnar í undirheima.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann