Sagan af skratta og þremur djöflum hans

Einu sinni sendi fjandinn burt þrjá djöfla þess erindis að skemma mannkynið. Þeir eru um ár í burtvistinni og koma aftur til skolla á vetrardaginn fyrsta. Fjandi fagnar þeim vel og spyr tíðinda. Verður einn fyrir svörum sá er mestur þóktist og segist hafa kennt alþýðu að ljúga. Annar sem taldi sig næstan hinum segir þá að hann hafi kennt mönnum að stela. „Miklu góðu hafið þér til leiðar komið,“ segir skratti. „En hvað gjörðir þú ómyndin þín?“ segir hann, því hann var minnstur talinn. „Það var nú ekki mikið; ég kom öllum heldri mönnum til að trúa að þú værir ekki til.“ „Það var vel gjört og betur en hinir gjörðu og skaltu hér eftir næstur mér teljast.“

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bls. 53.

© Tim Stridmann