Gullsikillinn

Einu sinni var maður nokkur er var ágjarn mjög og sveifst ekki neins; líka var hann svo nískur að hann gjörði engum manni gott.

Prestur hans gjörði honum oft áminningar og spurði hann oft hvar lenda mundi fyrir honum, en hinn sinnti því lítt.

Loksins dó maurapúkinn; fékk prestinum það mikillar áhyggju þegar hann frétti lát hans, og stóð honum það fyrir svefni; því hann efaðist um velferð hans.

Um nóttina dreymdi hann að hann sæi í loftinu yfir bæ hins andaða metaskál mikla; voru englar við aðra metaskálina og lögðu á hana góðverk þess er látinn var; en hins vegar stóðu árar og lögðu á sína metaskál öll illverk hans. Voru þau mörg og þung; en á móti kom ekki nema brauðstykki er maurapúkinn hafði eitt sinn gefið fátækum og hungruðum manni af meðaumkvun.

Tóku þá árarnir að hælast um, en englarnir sögðu: „Bíðum atkvæðis dómarans.“

Varð nú kyrrð mikil; sá prestur þá hvar gullpeningur einn lítill (gullsikill, sagði sögumaður) féll af himni í skálina hjá brauðstykkinu og varð sú skálin þá miklu þyngri og snautuðu árarnir þá burtu; en englarnir hófu siguróp og við það vaknaði prestur.

Þóttist hann vita að gullsikillinn hefði táknað verðskuldun Krists og varð honum rórra eftir.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar — Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

© Tim Stridmann