C. Veiðibrellur kölska

Annað veifið leitast djöfullinn við að tæla menn á vald sitt með ýmsum veiðibrellum; bregður hann sér þá stundum í ljóssins engils líki eða hann sætir því lagi að gjöra samninga við menn sem eiga í einhverjum kröggum og skuldbindur hann sig þá til að hjálpa þeim, en heimtar af þeim í staðinn sálir þeirra eða sjálfa þá til þjónustu sinnar eftir ákveðinn tíma. Stundum gjörir hann veðmála við menn og menn við hann sem eru öllum sömu skilmálum bundnir; en mjög eru þær sögur fáar hérlendar að kölski hafi ekki orðið undir í þeim skiptum, verið prettaður um kaupið og orðið sér til skammar.1

Kölski kvongast

Einu sinni bjuggu mæðgur tvær saman; voru þær vel efnaðar og hin yngri konan kvenkostur góður; urðu margir til þess að biðja hennar, en hún tók engum og hugðu því margir hún ætlaði að lifa í einlífi og þjóna guði, enda var stúlkan guðhrædd mjög. Þetta kom kölska mjög illa svo hann brá sér í ungs manns líki og beiddi stúlkunnar; ætlaði hann svo smátt og smátt að lokka hana á sitt vald. Gat hann gjört sig svo ráðvendislegan að stúlkan tók honum, og fóru festar fram og síðan giftust þau. En þegar kölski átti að fara [að] hátta hjá stúlkunni var hún svo hrein og flekklaus að hann gat ekki þolað nærri henni; sló hann því þá við að hann þyrfti að láta gjöra sér kerlaug ef honum ætti að verða vært, og var það gjört. Sat hann í kerlauginni alla nóttina.

Daginn eftir reikaði hann út og var að hugsa um hvernig hann ætti að koma sér úr þessari klípu. Hitti hann þá mann á förnum vegi og keypti því við manninn að hann skyldi ganga að eiga konuna í sinn stað. Brá kölski því gjörvi yfir manninn er hann hafði sjálfur haft. En maðurinn lofaði því aftur að láta hann hafa hið elzta barn sitt þegar það væri sjö vetra og skilja það eftir á sama stað og þá stóðu þeir.

Síðan fór hann til konunnar; hugði hún hann vera mann sinn, tók honum vel og urðu samfarir þeirra góðar. Áttu þau son einn barna og unnu honum mikið. En er pilturinn var kominn á sjöunda ár tók föður hans að setja hljóðan mjög. Kona hans gekk á hann því hann væri svo hryggur og sagði hann henni þá upp alla sögu. Þessa sagðist hún hafa verið of lengi leynd, en setti þó þau ráð er til dugðu.

Þann dag sem pilturinn varð fullra sjö ára fór faðir hans með hann á þann stað er hann hafði skilið við kölska, gjörði þar hring einn og vígði það svið með helgum söng, var hjá syni sínum til kvölds og sagði honum að hvað sem hann sæi um nóttina skyldi hann ekki fara út fyrir hringinn nema fyrir þann sem rétti honum hönd sína inn fyrir hringinn í Jesú nafni. Þegar faðir piltsins var farinn sá hann fyrst hina og þessa kunningja sína sem vildu lokka hann til sín með ýmislegu sælgæti; því næst sá hann foreldra sína sem buðu honum bæði með blíðu og stríðu að koma til sín. Þar eftir sá hann börn sem voru að leika sér að ýmsu og bjóða honum til sín. En pilturinn var stöðugur því enginn vildi verða til að rétta honum hendina í Jesú nafni inn fyrir hringinn. Því næst sá hann glæringar, loga, hræðilegar kynjamyndir og undursjónir er héldust allt til dags; varð pilturinn þá mjög hræddur, en hélzt þó við. Strax í dögun vitjuðu foreldrar hans um hann og réttu honum höndina inn fyrir hringinn, en kölski varð af kaupinu.


1 Sjá ýmsar sögur sama efnis af Sæmundi fróða, Kálfi Árnasyni og Hálfdáni í Felli auk þeirra sem hér koma.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bl. 16–17.

© Tim Stridmann