Einu sinni var Kristur að mynda fugla af leiri með öðrum börnum Gyðinga á sabbatsdegi. Þegar börnin höfðu verið að þessari iðju um hríð bar þar að einn af Sadúseum; hann var aldraður og siðavandur mjög og átaldi börnin fyrir þetta athæfi þeirra á sjálfum sabbatsdeginum. Hann lét sér þó ekki nægja ákúrurnar einar, heldur gekk hann að leirfuglunum og braut þá alla fyrir börnunum. Þegar Kristur sá hvað verða vildi brá hann hendi sinni yfir allar fuglamyndirnar sem hann hafði búið til og flugu þeir þegar upp lifandi. En það eru lóurnar, og því er kvak þeirra „dýrrin“ eða „dýrrindí“ að þær syngja drottni sínum dýrð og lof fyrir lausnina frá ómildri hendi Sadúseans.
Ef maður heyrir til lóunnar þetta fyrst á vorin: „Dýrrin, dýrrin“, veit það á gott; en heyri maður fyrst til hennar: „Óhú, óhú“, mun mótdrægt verða.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 5–6.