Selkolla

Meybarn fæddist á Eyjum í Strandasýslu; en með því engin kirkja var nær en á Stað í Steingrímsfirði var fenginn karlmaður og kona til að fara þangað með barnið til skírnar. Á leiðinni leggja þau af sér barnið og gamna sér þar saman. En þegar þau ætla að taka barnið aftur er það dautt og illilegt og skilja þau það eftir. Bráðum fór að bera á því að vondur andi hafði notað þetta tækifæri og farið í barnslíkamann og var hann síðan á kreiki í konulíki og stundum með selshöfði; af því var hún kölluð Selkolla, og þó ekki minna af því sagt hvernig Guðmundur biskup fyrirkom henni loksins eftir langa mæðu og fyrirhöfn. Munnmælasögur ganga enn um Selkollu og segir þar meðal annars að hún hafi einu sinni orðið á vegi fyrir smalamanni einum og gefið sig á tal við hann. Þegar hann spurði hana hvort hún væri ekki hrædd við sig svaraði hún skorinort: „Eg hræðumst öngvan nema hann Skitu-Gvend.“

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 29–30.

© Tim Stridmann