Nokkrar sögur gjöra að umtalsefni guðlegan mátt, speki og gæzku og á hinn bóginn vanmætti djöfulsins, ófimleik hans og illgirni. Í þessum sögum er þráfaldlega hæðzt að því að allar tilraunir djöfulsins misheppnast. Í sumum slíkum sögum kemur Sankti-Pétur fyrir eins og hann væri sjálfur drottinn af því það hefur þótt eiga bezt við að láta hann sem var æðstur allra helgra manna hafa svo virðulegt hlutverk en þótt það liggi við sjálft að hann komi stundum nokkuð kátlega fram. Í sumum sögum er Sankti-Pétur nokkurs konar miðliður milli drottins og djöfulsins, vanmáttugri en drottinn, en máttugri en djöfullinn.
Þegar guð drottinn hafði skapað himin og jörð virti hann það fyrir sér og sá að það var harla gott. En kölski var ekki á því; honum sveið það hversu fagur heimurinn væri. Hann tók það ráð í reiði sinni að hann meig á móti sólinni og ætlaði að myrkva með því þenna dýrðardepil sköpunarverksins. En ekki varð nú af því samt því úr migu kölska myndaðist Mývatn á Norðurlandi, enda þykir það jafnan ljótt stöðuvatn og þó mývargurinn er vatnið dregur án efa nafn af enn verri, og er hann sannkallað kvalræði fyrir menn og málleysingja umhverfis vatnið.1
1 Sbr. IV. flokks 1. grein um mývarginn og Mývatn, I. bindi, 623.–24. bls.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 5.