Ævilok Bakkabræðra

Ævilok tveggja bræðranna, Eiríks og Jóns, urðu þau að annar dó í hrísbyrðinni, en af hinum beit hákall handlegginn og varð það hans dauðamein. Þriðji bróðirinn, Gísli, drukknaði í Stafá, þar sem nú heitir Gíslavað. Enginn maður annar hefur svo menn viti drukknað í þeirri á sem er mjög lítil og aðskilur Fljót frá Sléttuhlíð. Fjórði bróðirinn, Þorsteinn, maður einsýnu Gróu, bjó á Bakka til elliára.

Frá Gísla telja sumir ætt svo: Hans dóttir Bríet gift Jóni, bjó á Heiði og víðar; hennar son Gísli bjó á Bakka, hans son Bjarni, hans son Gísli bjó á Bakka og víðar, hans son Bjarni bjó á Miðmói, dó 1854, 73 ára gamall, hans son Guðmundur býr enn á Miðmói 1864.

Sumir segja faðir bræðranna hafi heitið Björn Ingimundsson, ættaður úr Ólafsfirði, og hafi búið á Bakka nálægt 1600.

Sumir nefna einsýnu konuna Guddu (þ. e. Guðríði), en sumir nefna hana Gróu. Sagt er að kona Gísla hafi heitið Anna.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann