Bakkabræður

Á bæ þeim sem á Bakka heitir í Svarfaðardal1 bjó bóndi einn fyrir löngu. Hann átti þrjá sonu: Gísla, Eirík og Helga; voru þeir orðlagðir fyrir heimsku og heimskupör þeirra mjög í frásögur færð þó fæst þeirra verði hér talin.

Einu sinni þegar þeir bræður voru vel á legg komnir reru þeir á sjó með föður sínum til fiskidráttar. Varð þá karli svo snögglega illt að hann lagðist fyrir. Þeir höfðu haft með sér blöndukút á sjóinn og kallaði karl til sona sinna þegar stund var liðin og bað þá um kútinn. Þá segir einn þeirra: „Gísli-Eiríkur-Helgi“ (því svo voru þeir allajafna vanir að segja þegar einhver þeirra talaði til annars af því þeir vissu aðeins að þessi voru nöfn þeirra allra), „faðir vor kallar kútinn“. Þá segir annar: „Gísli-Eiríkur-Helgi, faðir vor kallar kútinn,“ allt eins sagði hinn þriðji, og á þessu voru þeir að stagast þangað til karlinn var dauður því enginn þeirra skildi hvað karlinn vildi kútnum. Síðan er það haft fyrir máltæki að sá „kalli kútinn“ sem er að deyja.

Eftir þetta héldu þeir bræður til lands, bjuggu um lík karls og bundu það upp á brúna meri sem hann átti, ráku hana síðan á stað og létu hana ráða hvert hún færi; því þeir sögðu hún gamla Brúnka mundi rata. Seinna fundu þeir Brúnku berbakaða og bandlausa í högum sínum og vissu þá að hún hafði ratað, en ekki skyggndust þeir neitt eftir því hvað hún hefði gert af karlinum.

Þeir bræður bjuggu eftir föður sinn á Bakka og voru kenndir við bæinn og kallaðir ýmist Bakkabræður eða Bakkaflón. Þeir erfðu Brúnku eftir karlinn og létu sér mjög annt um hana. Einu sinni kom hvassviðri mikið og urðu þeir þá hræddir um að Brúnka mundi fjúka, báru því á hana og hlóðu upp með henni svo miklu grjóti sem á henni tolldi; eftir það fauk hún hvorki né stóð upp framar.

Meðan þeir Bakkabræður áttu Brúnku sína voru þeir allir einu sinni á ferð í tunglsljósi um vetur á ísum og reið einn þeirra merinni, en hinir gengu með hesti hans. Þeir tóku eftir því að maður reið alltaf á hlið til við reiðmanninn, en það þótti þeim þó undarlegast að honum fór ekki orð frá munni nema þeim heyrðist hann segja við hvert fótmál sem merin tók: „Kári, Kári.“ Þetta þótti þeim því kynlegra sem þeir vissu að enginn þeirra hét því nafni. Hugsaði þá reiðmaðurinn með sér að ríða þenna pilt af sér. En því harðara sem hann reið því tíðar heyrðist honum sagt: „Kári, Kári,“ og hinir bræðurnir sáu að fylgdarmaðurinn reið alltaf á hlið við bróður sinn, hvort hann fór hægt eða hart. Loksins komust þeir heim og sáu að þegar sá þeirra fór af baki sem reið fór fylgdarmaður hans eins af baki og lét inn hestinn sinn um leið og þeir bræður, en hann hvarf þeim með öllu þegar þeir fóru inn úr tunglsljósinu.

Ef einn þeirra bræðra þurfti að fara eitthvað fóru þeir ævinlega allir. Einu sinni fóru þeir í langferð hér um bil þrjár þingmannaleiðir. Þegar þeir voru komnir tvo þriðjunga vegarins mundu þeir eftir því að þeir höfðu ætlað að fá léðan hest til ferðarinnar. Sneru þeir svo heim aftur, fengu hestinn og fóru svo ferðar sinnar.

Einu sinni sem oftar fóru þeir bræður að færa landsdrottni sínum landskuldir af Bakka. En það var ekkja sem jörðina átti; þeir greiddu henni skuldirnar og voru svo hjá henni um nóttina. Morguninn eftir héldu þeir heimleiðis og áttu langa leið að fara. Þegar þeir voru komnir meir en á miðja leið tekur einn þeirra til orða og segir: „Já, Gísli-Eiríkur-Helgi, þá man ég það að við báðum ekki konuna að gefa okkur í guðsfriði.“2 Hina rankaði og við að hann segði satt; sneru þeir því aftur til ekkjunnar, gerðu boð fyrir hana og sögðu: „Gefðu okkur í guðsfriði.“ Héldu þeir svo heimleiðis, en þegar þeir voru komnir víst á miðja leið mundu þeir enn eftir því að þeir höfðu ekki þakkað ekkjunni fyrir sig og svo að enginn skyldi hlæja að þeim fyrir það að þeir kynnu ekki mannasiði sneru þeir enn aftur, hittu ekkjuna, þökkuðu henni með mestu virktum fyrir sig og fóru svo heim.

Einu sinni voru þeir bræður enn á ferð og mættu manni sem hafði dýr í barmi sínum sem þeir höfðu aldrei séð. Þeir spurðu hvað þetta dýr héti og til hvers það væri haft. Maðurinn segir að það sé köttur og drepi hann mýs og eyði þeim úr húsum. Það þykir þeim bræðrum mikil gersemi og spyrja hvort kötturinn sé ekki falur. Maðurinn segir að svo megi þeir mikið bjóða að hann selji þeim hann og varð það úr að þeir keyptu köttinn fyrir geipiverð. Fara þeir svo heim með kisu og láta vel yfir sér. Þegar heim kom mundu þeir eftir því að þeim hafði láðst eftir að spyrja um hvað kötturinn æti; fara þeir svo þangað sem maðurinn átti heima sem seldi þeim köttinn. Var þá komið kvöld og fór einn þeirra upp á glugga og kallaði inn: „Hvað étur kötturinn?“ Maðurinn svarar í grannleysi: „Bölvaður kötturinn étur allt.“ Með það fóru þeir bræður heim, en fóru að hugsa um þetta betur að kötturinn æti allt. Þá segir einn þeirra: „Bölvaður kötturinn étur allt og hann bróður minn líka,“ og svo sagði hver þeirra um sig. Þótti þeim þá ráðlegast að eiga ekki kisu lengi yfir höfði sér, fengu mann til að stúta henni og græddu lítið á kattarkaupunum.

Þá keyptu þeir bræður einu sinni stórkerald suður í Borgarfirði og slógu það sundur svo það væri því hægra í vöfunum að flytja það. Þegar heim kom var keraldið sett saman og farið að safna í það, en það vildi leka. Fóru þá bræðurnir að skoða hvað til þess kæmi. Segir svo einn þeirra: „Gísli-Eiríkur-Helgi, ekki er kyn þó keraldið leki, botninn er suður í Borgarfirði.“ Síðan er það haft fyrir máltæki: „Ekki er kyn þó keraldið leki.“

Einu sinni kom Hólabiskup á vísitazíuferð að Bakka. Þeir bræður voru heima, vildu buga einhverju að biskupi og buðu honum að drekka. Biskup þáði það, en af því þeir bræður áttu ekkert sélegra ílát til í eigu sinni en nýtt næturgagn færðu þeir biskupi í því rjóma að drekka. Biskup vildi hvorki taka við ílátinu né drekka úr því; þeir bræður litu þá hvor upp á annan og sögðu: „Gísli-Eiríkur-Helgi, hann vill ekki drekka rjómann hér á Bakka; drekki hann þá hland.“

Bakkabræður höfðu tekið eftir því að veðurlag var kaldara á vetrum en sumrum og eins hinu að því kaldara var í hverju húsi sem fleiri og stærri voru á því gluggarnir. Þeir þóttust því vita að allt frost og bitra væri af því komið að hús væri með gluggum. Þeir tóku sig því til og gerðu sér hús með nýju lagi að því leyti sem þeir höfðu engan glugga á því, enda var þar kolníðamyrkur inni sem nærri má geta. Þeir sáu reyndar að þetta var dálítill galli á húsinu, en bæði hugguðu þeir sig við það að hlýtt mundi verða í því á vetrum, og eins héldu þeir að mætti bæta úr því með góðum ráðum. Þeir tóku sig því til einn góðan veðurdag þegar glaðast var sólskin um hásumarið og fóru að bera út myrkrið úr húsinu í húfum sínum, sumir segja í trogum, hvolfdu úr þeim myrkrinu, en báru aftur inn í þeim sólskin í húsið og hugðu nú gott til birtunnar eftirleiðis. En þegar þeir hættu um kvöldið og settust að í húsinu sáu þeir ekki heldur en áður handa sinna skil.

Eitt sumar áttu þeir bræður kálflausa kú; þótti þeim það mikið mein og vildu fá sér naut til að kelfa3 hana. Einu sinni þegar kýrin var yxna fóru þeir með hana til bónda eins sem átti naut og báðu hann um það. Bóndi leyfði nautið og vísaði þeim til þess út í haga. Fóru þeir bræður svo með kussu4 til bola og voru að bauka við þetta lengi dags. Loksins komu þeir heim aftur til bónda og sögðu honum að nautið hans væri ekki kúneytt. Bóndi innir þá eftir hvernig þeir hafi haldið kúnni og lætur þá skilja á sér að þeir muni hafa farið að því eins og flón, sem þeirra sé von og vísa. „Ó nei,“ segja þeir; „við lögðum kúna á hrygginn og héldum henni svo upp í loft.“ „Það grunaði mig,“ segir bóndi; „þið eruð ekki meðalflón.“

Þeim Bakkabræðrum hafði verið sagt að það væri ósköp hollt fyrir þá að gera sér endrum og sinnum heitar fótlaugar. En af því jafnan var þröngt um eldivið hjá þeim tímdu þeir ekki að hita vatn til þess. Einu sinni vildi svo vel til að þeir hittu fyrir sér laug eða hver á ferð sinni. Nú hugsuðu þeir sér gott til glóðarinnar að þeir skyldu fá sér heitar fótlaugar fyrir ekki neitt, tóku því af sér skó og sokka og settust hver hjá öðrum í kringum hverinn og höfðu fæturna ofan í. Þegar þeir fóru að gæta að þekkti enginn þeirra sína fætur frá hinna. Með þetta voru þeir lengi í stöku ráðaleysi; þeir þorðu ekki að hreyfa sig því þeir vissu ekki nema þeir kynnu að taka skakkt til og taka hver annars fætur og sátu svona þangað til þar bar að ferðamann. Þeir kölluðu til hans og báðu hann í öllum bænum að þekkja í sundur á þeim fæturna. Maðurinn gekk til þeirra og sló með stafnum sínum á lappirnar á þeim og kannaðist þá hver við sínar.

Eitt sinn fóru Bakkabræður í viðarmó; var það hátt uppi í brattri fjallshlíð. Nú rifu þeir viðinn og bundu byrðar til að velta ofan brekkuna. Þá hugsaðist þeim að hvorki gætu þeir séð hvað byrðunum liði á leiðinni né heldur vitað hvað af þeim yrði þegar ofan kæmi. Kom þeim þá það ráð í hug að binda einn þeirra bræðra innan í eina byrðina og skyldi hann hafa auga á byrðunum. Tóku þeir svo Gísla, bundu hann í eina byrðina og létu höfuðið standa út úr. Síðan veltu þeir byrðunum á stað og ultu þær ofan á jafnsléttu. En þegar þeir Eiríkur og Helgi komu ofan fóru þeir að hyggja að bróður sínum og vantaði þá á hann höfuðið svo hann gat ekkert sagt þeim hvernig byrðunum hafði liðið né hvar þær höfðu lent. Þó þeir Eiríkur og Helgi væru ekki orðnir nema tveir eftir sögðu þeir ávallt eins og áður þegar annar talaði til hins: „Gísli-Eiríkur-Helgi.“

Það hef ég seinast frétt af þeim bræðrum Eiríki og Helga að þeir sáu tungl í fyllingu koma upp úr hafi og gátu sízt skilið í, hvað það væri. Fóru þeir þá til næsta bæjar og spurðu bóndann þar hvað þessi hræðilega skepna væri. Maðurinn sagði þeim að það væri herskip. Við það urðu þeir svo hræddir að þeir hlupu inn í fjós og byrgðu bæði dyr og glugga svo engin skíma næði inn til þeirra, og þar er sagt þeir hafi svelt sig í hel af ótta fyrir herskipinu.


1 Mun eiga að vera Bakki í Fljótum sem ráða má af Ármanni á Alþingi. Baldvin Einarsson sem sjálfur var úr Fljótum segir þar um Sighvat sveitunga sinn: „Enginn getur sagt það um hann Sighvat að hann sé heimskingi og þó er sagt að hann sé ættaður úr Fljótum í Skagafirði sem ætíð hefur verið í munnmælum jafnað saman við Flóa að aulahætti eins og stefið sannar:

Tvær eru sveitir, Flói og Fljót,
sem flestir saman jafna, o. s. frv.“

2 Í sveitum er það góð og gömul venja hér á landi eða hefur verið þegar einhverjum er gefið að borða, hvort heldur er gestur eða heimamaður, að hann segir við þann eða þá sem veita honum, áður en hann tekur til matarins: „Gefðu (Gefið þið) mér í guðsfriði matinn,“ eða: „Guð laun’ matinn,“ en á eftir máltíð er sagt: „Guð laun’, eða: „Guðsást fyrir matinn.“

3 Venjulega er nú sagt að kefla kú eins og að kefla tröf.

4 Svo er kýr kölluð almennt fyrir norðan Skagafjörð, í Eyjafirði, Þingeyjarsýslu og Múlasýslum, en annarstaðar kýr eða kusa, baula eða belja.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann