Miklu fleiri eru þó aðrar sögur sömu tegundar, en yfirgripsmeiri og almennari. Margar þeirra snerta klerka og kirkjur og þá hluti sem þar eru um hönd hafðir og eru þær þeim mun hlægilegri sem fyndni á verr við allt sem heilagt er og háleitt. Það mun fremur vera málsháttur en fyndni þegar sagt er: „Það er ekki (lítill) matur í messunni;“ en við þenna málshátt eiga þau munnmæli skylt að aldrei séu menn jafnsársvangir sem úr kirkju. Sumar þessar sögur segja frá úrræðum þeim sem prestar hafa átt að grípa til þegar þeim fataðist eitthvað við messugjörð, en sumar frá hraparlegum misskilningi á guðsorði.
Einu sinni var prestur á Stóruvöllum á Landi. Hann átti að leiða tvær konur í kirkju einn sunnudag, sína frá hvorum bæ, Vatnagarði og Stampi; þeir bæir eru skammt hvor frá öðrum og hinn síðarnefndi hjáleiga frá Galtalæk. Presturinn var vanur að prédika blaðalaust og lagði allt á minnið. Þegar ræðunni var lokið og hann ætlar að fara að leiða konurnar í kirkju gleymir hann því fyrst að þær voru tvær og þar næst ruglast hann í fyrrnefndum bæjanöfnum, en byrjar þó og segir: „Konan frá Vatna-Galta-Stampi, hún N. N. mín sem við allir þekkjum er í dag inngengin“ o. s. frv., og heldur svo áfram með kirkjuinnleiðsluna. Þegar meðhjálparinn heyrir að presturinn muni ekki ætla að minnast hinnar konunnar gengur hann fram að prédikunarstólnum og kallar upp: „Konurnar voru tvær.“ Þá gegnir prestur og segir: „Nú, hafi þær það þá báðar.“
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 492–493.