Illa borgað í fyrra

Prestur nokkur sendi vinnupilt sinn á sunnudagsmorgun til bónda þess er Davíð hét þess erindis að fala smjör af honum. Pilturinn fer og kemur aftur um daginn; stendur þá sem hæst á embættisgjörð í kirkjunni og fer hann út í krókbekkinn og sezt þar. Prestur er í stólnum að prédika. Ber þá svo að að þegar hinn er nýsetztur að prestur segir viðvíkjandi efni því sem hann er um að ræða: „Hvað segir sá heilagi Davíð hér um?“ Pilturinn hélt hann spyrði sig og svarar hátt svo allir heyrðu: „Hann bölvar því smjörinu þér fáið, því þér hefðuð ekki borgað sér svo vel í fyrra.“

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann