16.
„Hverjum Oddinum þá, drottinn minn?“

(Handrit Jónasar Rafnars. Sögn frú Þórunnar Stefánsdóttur).

Biskup nokkur í Skálholti var mjög guðhræddur og gerði á hverju kvöldi bæn sína í dómkirkjunni. Ráðsmaður staðarins hét Oddur, og fjósastrákurinn hét sama nafni. Biskup átti dóttur uppkomna, sem var hinn bezti kvenkostur. Oddi fjósastrák lék forvitni á að vita, hvað biskup væri að erinda í kirkjunni á kvöldin. Klæddi hann sig þá í hvítan hjúp, fór út í kirkjuna á undan biskupi og setti sig í stellingar uppi á altarinu. Kom biskup að vörmu spori, en tók ekki eftir strák, því að skuggsýnt var í kirkjunni. Kraup biskup við gráturnar og fór að biðjast fyrir upphátt; meðal annars bað hann drottin að opinbera sér, hverjum hann ætti að gifta dóttur sína. Þá svaraði strákur: »Honum Oddi«. Biskup leit upp og sá hvítklædda veru uppi á altarinu; hélt hann að þetta væri engill af himnum sendur, laut höfði í auðmýkt og mælti: »Hverjum Oddinum þá, drottinn minn?« Þá svaraði strákur: »Þeim, sem kamrana mokar og kaplana hirðir«. Skiftust þeir svo ekki fleiri orðum.

Upp frá þessu fór biskup að dubba upp á fjósastrákinn. Var hann settur til mennta og reyndist mjög námfús. Að loknu námi fékk hann biskupsdótturinnar og var um leið vígður til bezta brauðsins í stiftinu.

Источник: Gríma VII. Þjóðsögur. Safnað hefur Oddur Björnsson. Jónas Rafnar bjó undir prentun. Útgefandi Þorsteinn M. Jónsson. Akureyri. 1932. Bls. 64–65.

© Tim Stridmann