Blóðeik og selja

Um blóðeik er áður getið1 að hana má ekki til skipa hafa því það skip ferst. — Seljunni fylgir sú náttúra að þar sem hún er höfð í baðstofu eða bæjarhúsi getur maður hvorki dáið né kona alið barn né heldur fénaður komizt frá fóstri sínu ef selja er höfð í útihúsi. Ekki má heldur tálga selju eða höggva því þá sker maður sig eða heggur til meiðsla og gróa öll þau sár seint og illa ef þau gróa nokkurn tíma, og í mæli er það að það hafi verið seljuhnyðja sem Grettir hreppti af áverkann sem hann dró til bana. Ekki þykir heldur óhætt að hafa selju til eldsneytis því þegar henni er kynt verða brestir svo miklir í eldinum að undrum þykir sæta. Af þessu er það allvíða títt að rekamenn láti seljurafta liggja óhirta við sjó, velta þeim hvorki undan né hirða um þó út taki aftur því þeim þykir selja versta tré af guði gefið.


1 Sjá Illugi smiður, 399. bls. á undan.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 642.

© Tim Stridmann