Helgasti fiskur í sjó

Þeir gömlu héldu skötu hafa flestar náttúrur af fiskakynum, níu neytar og níu ónáttúrur, hinar fyrstu að hún verji dauðan mann níu nætur, en upp eti hann aðrar níu sem málsháttur er af.

Ein stór ónáttúra hennar ef hún er etin síðast matar að kveldverði lýgur hún upp á þann saklausari líka, þó sé mannsmorð so sem reyndist utanlands þegar Björn Benediktsson var þar. Hún skal heilnæmust að morgunverði eða miðdegis og þó ekki fyrst matar, heldur þar næst, aldrei þó seinast matar.

Þar eru sérdeilis í þeim skötum tvær pípur vaxnar með hryggnum sem aðrar hafa ekki; þar í verða þessar buddur [þ. e. Pétursbuddur]1 hvörjar eftir níu mánuði skuli af henni út gjótast. Síðan skal hún þar yfir liggja sem fugl á eggjum, hvort það eru níu vikur eður mánuðir hef ég ekki sannlega heyrt né lesið, utan að sönnu verða buddurnar svartar á þeim tíma og síðan rekur þær tómar upp nógligar á Hornströndum og opnar á öðrum enda sem steinninn hefur út farið.

Hákon Þormóðsson minn föðurfaðir hafði þær altíð í sína Pétursfesti, hann kallaði, þegar hann reisti skip sín og kunnu þau aldrei manni að týna. Slíkt þykir nú pápiska. Þennan stein hafa heimskir fundið, kastað á sjó og kallað galdrastein sem fleira nú.

Eftir því að Sankti-Pétur skyldi svar greiða hvört fiskakyn helgast eða náttúruríkast hann héldi í sjónum vera þá skyldi hann sínum öngli hafa út kastað og beðið guð að sýna sér þann fisk, og þá hafði hann dregið skötu hvörri hann aftur sleppti, þótti það ljótur fiskur, so sem óætur. Aftur kom og einnin skata og í þriðja sinni. Hana lét hann inn og krufði og fann þessar buddur.


1 Sumstaðar er Pétursbuddan kölluð Pétursskip og er ekki ólíklegt að til hafi verið saga um það að buddan hafi verið fiskibátur Sankti-Péturs þó ekki hafi ég getað náð í hana og buddan sé eins og hún lítur út heldur ólöguleg til þess að vera skip því hún er hylki í lögun líkt og börur með kjálkum og standa út úr henni fjórir angar eða oddar, tveir fram og tveir aftur. Buddan er hol innan og opin í annan endann.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 631.

© Tim Stridmann