„Mál er að mæla“

Á nýjársnótt verða margir hlutir undarlegir. Það er eitt að kýr mæla þá1 mannamáli og tala saman. — Einu sinni lá maður úti í fjósi á nýjársnótt til þess að heyra hvað kýrnar töluðu. Hann heyrir þá að ein kýrin segir: „Mál er að mæla (aðrir: mæra).“ Þá segir önnur: „Maður er í fjósi.“ „Hann skulum vér æra,“ segir þriðja kýrin. „Áður en kemur ljósið,“ segir hin fjórða. Frá þessu gat maðurinn sagt morguninn eftir, en ekki fleiru því kýrnar höfðu ært hann.


1 Sumir segja að, kýr tali á Jónsmessunótt og enn aðrir á þrettándanótt eins og næsta saga á eftir sýnir sem sýnist vera skeytt saman af þessari sögu og af einni kúaþulunni.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann