Loksins skal hér getið að margar sögur hafa farið af ormum og skrímslum sem sézt hafa hér og hvar bæði í vötnum á Íslandi og í sjónum. Til þeirra sagna er brekkusnigillinn eða þó öllu heldur lyngormurinn undirrótin. En um brekkusnigilinn er það almæli að ef maður nái með fingrinum í horn það sem stendur fram úr miðjum hausi hans, mitt á milli þeirra fjögra horna sem á honum eru og mest ber á, þá komi það allt fram sem maður óskar sér á meðan maður heldur í hornið. En til þess að koma brekkusniglinum til að rétta fram miðhornið, því hann er tregur á því, skal bera gullhring að hausi hans og hafa yfir þenna formála um leið:
„Brekkusnigill brekkusnigill,
réttu út miðhorn,
ég skal gefa þér gullhring
á hvert eitt þitt horn.“
Sumir segja og að hvort sem maður leggi gull undir brekkusnigil eða lyngorm vaxi bæði ormurinn og gullið unz ormurinn verður ákaflega stór og mannskæður ef ekki er nógu snemma aðgætt og ormurinn drepinn, en ormurinn er svo elskur að gullinu að fyrr lætur hann drepa sig á því en flæma sig af því; þaðan er kominn talshátturinn um nirfla sem fastheldnir þykja á fé sínu, „að þeir lúri á því sem ormur á gulli“. En sé þeir ormar látnir halda lífi, hefur það oftast orðið niðurstaðan að orminum með gullinu hefur verið snarað í vatnsföll eða stöðuvötn og hafast þeir þar æ við síðan. Þess konar ormur er í Lagarfljóti í Múlasýslu, og kannast bæði séra Stefán og Eggert Ólafssynir við hann, enda skal hans þegar getið. Annar á að vera í Skjálfandafljóti, þriðji í Hvítá, fjórði í Skorradalsvatni. Líkur ormur er sagt að sé í Surtshellir og því á þurru landi. En flestar slíkar frásögur eru mjög líkar því sem sagt er um lyngorm Þóru borgarhjartar í sögu Ragnars loðbrókar.
Að lyktum set ég hér sögur um ókindurnar í Lagarfljóti.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.
Текст с сайта is.wikisource.org