Flatt sker austanvert við Papey fyrir Suður-Múlasýslu heitir Ormsbæli. Það er í mæli að þar hafi legið ormur á gulli eða dreki til forna þangað til Hollendingur einn sem Kumper hét skaut á bælið með fallbyssum til þess að hrekja orminn af gullinu og ná því sjálfur. Þess er ekki getið hversu mikið gull Kumper fann í Ormsbæli, en hitt er sagt að ormurinn hafi fyrst flúið til Ormsskers og þaðan inn á Hamarsfjörð, og ætla menn að hann hafi tekið sér þar varanlegan bústað á firðinum og komi í ljós fyrir stórtíðindum eins og ormurinn í Lagarfljóti og skrímslið í Hvammsfirði fyrir vestan, og því er sagt að menn þori ekki að róa til fiskjar á hvorugum staðnum.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 638.