Sjáandi fæddir hvolpar

Það er alkunnugt að hvolpar fæðast blindir, en sagt er að það vilji einstöku sinnum til að hvolpar fæðist sjáandi (eða með opin augu). Slíka hvolpa á strax að drepa, en sé það ekki gjört sökkva þeir í jörð þegar þeir eru þriggja nátta gamlir og koma svo upp úr jörðinni á sama stað aftur að þrem árum liðnum, og deyr þá hver skepna sem þeir sjá. Þess vegna er það alténd venja að skoða hvolpana strax nýgotna hvort þeir eru með opin augu, og sé það þá að drepa þá strax. Einu sinni bar svo óheppilega við að sjáandi fæddur hvolpur var látinn lifa og hvarf hann að þrem nóttum liðnum. Var nú við búið að hann mundi að þrem árum liðnum koma upp. Flúði þá fólkið bæinn, en ekki þóktu vandræðin búin fyrir það. Ráðlagði þá einn maður að passa að hafa nógu bjart í húsinu og láta spegla allt í kring í því áður en hvolpurinn kæmi upp. Var nú svo gjört. Hvolpurinn kom nú upp á ákveðnum stað og degi; sá hann þá engan annan en sjálfan sig í speglunum. Dó hann þá strax og var síðan brenndur til ösku.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bl. 6–7.

© Tim Stridmann