Naddi

Meðan þeir niðjar Bjarnar skafinn voru uppi lagðist af alfaravegur er liggur milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar og kallast Njarðvíkurskriður fyrir þá sök að óvættur einn í mannslíki að ofan en dýrs að neðan lagðist fyrir menn á veginn og veitti mörgum bana þegar fór að dimma nótt svo ófært var um veginn að fara. Hann hélt sig í gili því sem liggur Njarðvíkur megin við skriðurnar og kallað er síðan Naddagil svo á kvöldin um haust og vetur heyrðist eins og eitthvað væri að nadda og glamra á grjótinu heim að Njarðvík, og fyrir þetta kölluðu menn óvætt þenna Nadda.

Það var eitthvört sinn eitt haust síðla að Jón Bjarnarson kom seint um kvöld að Snotrunesi í Borgarfirði og ætlaði í Njarðvík, en komið var að dagsetri svo fólkið bað hann að gefa sig ekki í þá ófæru að leggja svo seint í skriðurnar; hann kvað sig mundi ekki saka, sér mundi ekki mein að verða, og hélt sína leið. En sem hann kom heim undir gilið, mætti honum óvætturinn og réði á hann. Varð þeirra aðgangur bæði harður og langur. Barst leikur þessi allt á jaðar þann sem heitir Krossjaðar1; þar sagði hann óvættur þessi hefði slitið sig af sér og dragnað í sjóinn. Þar var síðan settur upp kross sem er þar enn, með þeirri áskrift í latínu að vegfarendur skyldu framfallandi lesa þar faðirvor, og hélzt sá siður lengi fram eftir öldum.

Jón komst í Njarðvík þjakaður mjög, víða marinn og blár og lá rúmfastur í mánuð, komst svo á ferð, en aldrei bar á vættinum eftir viðureign þeirra. Hann hélt óvætt þenna úr sjó kominn fyrir það hann leitaði seinast til sjóar.


1 Krossjaðar heitir meljaðar í Njarðvíkurskriðum. Stendur neðan til í honum trékross, rétt neðan við götuna, og eru skorin á krossinn þessi orð (vers):

Effigiem Christi, qui prodis, pronus honora.

Fyrir 14 árum (1846) var krossinn orðinn fúinn og fellilegur; þá setti bóndinn Jón Sigurðsson í Njarðvík, fræðimaður og fornmenjavinur, annan nýjan með sömu gjörð og hinn gamla þar aftur. Í Olavii Oeconomiske Reise, Kh. 1780, 451. bls., stendur „transis“, og lætur það hvort sem er nærri útleggingunni sem að ofan er sett.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 134–135.

© Tim Stridmann