Sæstúlkan á Höfða

Á einni tíð var það á Höfða í Höfðahverfi að fiskimenn reru til fiskjar vestur þar á Eyjafjörðinn. En þegar þeir drógu línuna kom upp á einum önglinum veiði sem þeir höfðu ekki vanizt; var það jungfrú forkunnar fögur. Hafði öngullinn krækzt undir svuntubandið hennar þegar hún var að skýla hjá eldhúsglugga móður sinnar á mararbotni. Var hún síðan í Höfða í um þrjú ár og á þeim tíma saumaði hún öll messuklæði handa prestinum þar. Þókti á þeim hið fegursta handbragð og hafa varað allt að þessum tíma.

Mikið illa undi þessi sæborna jómfrú meðan hún var í Höfða og bað jafnan að flytja sig þangað sem hún var tekin og hleypa sér þar niður. Var það þá einu sinni eftir þennan tíma að fiskimenn reru með hana þar vestur á fjörðinn. Bað hún þá fyrir að hitta sem bezt miðið sem þeir hefðu verið á þegar þeir tóku hana og sagðist skyldi senda einhverja skepnu á land til jarðteikna um ef þeir hittu nett á að skila sér heim aftur. Síðan slepptu þeir henni þar niður og sáu hana ekki framar. En að nokkrum dögum liðnum varð vart við að gripir nokkrir vóru í dældum nokkrum þar vestan í höfðanum.1 Fóru þá menn til og vildu ná þeim; var það nautahópur, sjö til níu að tölu, öll sægrá að lit, og var eitt griðungur harla mikill. Var þá farið að höndla kýrnar, en það var torsókt; þó náðist ein kvíga og griðungurinn. Vóru þau að öllum skapnaði lík landkúm nema blaðra ein var á nösunum, og þegar búið var að sprengja hana sóktu þau ekki eftir að fara í sjóinn. Var hvortveggi hinir beztu gripir og af þeim er komið margt sægrárra kúa um Norðurland. En í horninu á nauti þessu var hringur stór; er hann svo smíðaður að messing er utan um, en járnteinn er innan í og sést mörkuð nautsásjón í hringnum tveim megin við laut sem er í hann þar sem hann skal leika í lykkjunni hvar sem hann er í festur. Hringur þessi hefur síðan verið í kirkjuhurðinni í Höfða og sést þar enn. Hann er stór ummáls og vegur sex pund.


1 Dældir þessar eru síðan kallaðar Kvígudalir. [Hdr]

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 205–206.

© Tim Stridmann