Smalastúlkan frá Þingeyrum

Einu sinni var stúlka frá Þingeyrum að smala á hinum svo kallaða Haga vestur við Miðhóp. Var hún orðin svo þreytt að hún komst valla úr sporunum. Skammt frá vatninu hitti hún brúnan hest. Hafði hann ennistopp mikinn niður á snoppu, var stuttur og digur mjög og hófar hans snéru allir aftur. Stúlkan knýtti sokkabandi sínu upp í hestinn og lagði svuntu sína á bak hans, en sagði þá: „Ég held ég nenni ekki á bak.“ Þá varð svuntan og bandið eftir á þúfunni, en hesturinn hvarf í vatnið. Nykur heitir líka nennir, en hann þolir ekki að heyra nafn sitt nefnt og hverfur þá, og vildi stúlkunni það til lífs, ella hefði hann sett sig með hana í vatnið.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 211.

© Tim Stridmann