Þorsteinn tól

Fyrir fáum árum hefur maður lifað í Öræfum og þeim sveitum Þorsteinn að nafni, almennt kallaður Þorsteinn tól.1 Hann kvað hafa verið smiður, gáfumaður og skáldmæltur, en fótur hans annar mjög krepptur svo hann var sem krypplingur að því leyti.

Á fyrri árum Þorsteins er mælt að hann hafi farið um hausttíma í sauðaleit með öðrum mönnum úr Suðursveitinni. Gengu þeir inn með Jökulsá á Breiðamerkursandi og þar um jökulinn, og er þeir hafa litla stund gengið sjá þeir mannsspor afar stór sem þar liggja fram undan þeim með blóðdrefjum í. Þorsteinn sem var gleðimaður og frískur vel fer að hlæja að sporum þessum og reyna til að glenna sig í þau hvað honum veitti mjög erfitt. Gengur hann svo með þessari aðferð tímakorn eftir förunum og gjörir mikið narr að þeim, en félögum hans þykir þessi aðferð óþarfleg. Svo leið dagur að kvöldi og þeir félagar allir héldu heim aftur. En um nóttina þá Þorsteinn er sofnaður þykir honum stórvaxin kona koma til sín og mæla á þessa leið: „Illa gjörðir þú Þorsteinn í gær að glenna þig í spor jóðsjúkrar skessu, og mikið kapp lagðir þú á að flimta sem mest um það allt er þér bar fyrir augu í gær ásamt félögum þínum, en þess læt ég um mælt fyrir þér að áður næsti dagur er að kvöldi munu önnur eins lýti á þig komin sem á spor mín í gærdag.“ Síðan hvarf hún, en um morguninn er hann vaknaði hafði hann lítið viðþol í fótunum, lá svo lengi og kreppti síðan eins og fyrr er frá sagt og bar kröm sína hraustlega til dauðadags.


1 Þorsteinn tól Gissurarson (1768–1844) bjó síðast á Hofi í Öræfum.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann