Um reimleika í Njarðvík

Það var sögn manna að fyrr á tíðum hefði ætíð í hvörs bónda tíð orðið vart við ýmislegt óvanalegt; sú trú hélzt við í Njarðvík fram á átjándu öld. Það var einu sinni fyrrum að maður fór yfir fjallveg þann sem Eggjar heita, um vetrartíma. Vegurinn liggur með gili því sem Hvannagil heitir. Honum varð litið ofan í gilið; hann sá þá hvar stórvaxinn maður lá og hafði bagga á baki. Hann var að laga á sér skóinn og leit til mannsins. Honum sýndist býsna mikill vöxtur hans, varð hræddur og hljóp ofan sem fætur toguðu.

Eins og siður var áður var eitt sinn á Þorláksmessukvöld fyrir jól verið að slátra jólaám í bæjardyrum í Njarðvík og var mikið gems og kátína í sláturmönnum. En þá mest var um gleði þeirra heyrðist þeim stigið þungt til úti og stungið fast niður broddstaf. Þeim þótti þetta kynlegt og horfðu út með hurðinni. Þeir sáu þá að ferlega stór maður stóð fyrir dyrum og studdi sig fram á stöng sem þeim sýndist úr járni; hann horfði rétt að dyrunum álútur eins og hann væri að hlera til þess sem fram færi inni. Þeir urðu felmsfullir og hættu öllum hávaða. Að litlum tíma liðnum heyrðu þeir að þetta þrammaði burt aftur.

Eitt sinn voru Njarðvíkingar að brenna kol í þoku innan til í víkinni. Þeir heyrðu þá tvisvar um daginn skellihlátra yfir í dal þeim sem heitir Urðardalur; hann gengur ofan frá Dyrfjöllum. Hundar þeirra stukku upp með gelti miklu. Ekki bar svo meira á þessu.

Það var siður barna í Njarðvík að heiman og úr hjáleigunni að á vetrarkvöldin í tunglsljósi slógu þau sér saman til leika, en einu sinni eitt kvöldið þá þau að vana hættu að skemmta sér hlupu heimabörnin að bæjardyrum og ætluðu stanzlaust inn. Þá sáu þau í tunglsljósinu að maður lá þvert yfir bæjardyrnar. Hann var svo stór að hann varð að kreppa sig um knésbætur og var þó húsið breitt. Þau urðu hrædd, en réðu það af að hlaupa undir knésbætur hans, en sakaði ekki. En eftir þetta lögðust leikar þessir niður.

Seint á öldum gekk maður um vetrartíma út á Hnausa sem kallaðir eru. Gengu harðindi og því engin mannferð að heiman. Hamraflug eru upp yfir. Hann sá þá stórkostleg mannsför sem lágu ofan undan flug[un] um allt á klettahlein eina sem liggur á milli tveggja fjara. Þar hafði þetta staðið við og stutt sig fram á staf eins og það væri að horfa ofan í fjörurnar. Hundur hafði gengið með honum. Eins voru för hans óvanalega stór. Svo hafði þetta gengið sama veg upp eftir aftur. För þessi vóru fet hans á breidd, en svöruðu sér ekki á lengdina. Hann kvað þau ekki aldeilis nýgengin, en samt ekki fyrir löngu. Sá maður er sagði frá þessu var talinn sannorður.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 159.

© Tim Stridmann