Brúðarhvarfið

Einu sinni bjó ókvæntur maður í Torfastaðakoti í Biskupstungum sem Jón hét; hann var vel efnaður að gangandi fé. Þegar sagan gjörðist ætlaði hann að fara að eiga stúlku sem hjá honum var; það var um haust skömmu eftir réttir. Var búið að lýsa allar lýsingar og bóndi búinn að tiltaka veisludaginn og farinn að bjóða.

Nú kom seinasti dagurinn sem hann ætlaði að bjóða fólki til veislunnar. Stúlkan ætlaði um daginn að þvo þvott í læk skammt frá bænum og urðu þau samferða að læknum. Tók hún til þvottarins þegar hann skildi við hana.

Leið nú að kvöldi og kom þá bóndi heim aftur. Gekk hann hjá læknum og sá að sumt af þvottinum var óþvegið á bakkanum og sumt hálfþvegið, en sumt lá niðri í læknum. Hugsaði hann að stúlkunni hefði orðið illt og farið heim. Fór hann þá heim að bænum og spurði eftir henni, en hún hafði ekki komið þar og enginn vissi neitt um hana.

Nú fór bónda ekki að lítast á og leitaði hann brúðarefnis síns með miklum mannsöfnuði víða og lengi. En hún fannst hvergi nokkurstaðar. Var svo leitinni hætt og féll umtal manna um atburð þenna smátt og smátt niður og allar þær getgátur sem gjörðar höfðu verið um hvarf brúðarefnisins.

Leið nú og beið veturinn og næsta sumar til hausts svo að ekkert fréttist um stúlkuna. En þá hvarf einu sinni allt fullorðna féð bóndans í Torfastaðakoti. Þótti það kynlegt. Leitar nú bóndi fjárins og finnur ekki. Fær hann sér þá mann til að leita með sér.

Þeir búa sig út með nesti og nýja skó og leita nú upp til jökla. Fara þeir víða um fjöll og firnindi og finna enga skepnu. Gengu þeir þá upp á Langajökul og norður eftir honum til þess að hafa sem mest víðsýni. En þegar þeir voru vel komnir upp á jökulinn skall á þá svartaþoka og bylur svo þeir villtust og vissu ekki hvert þeir fóru. Gengu þeir svo lengi eitthvað út í bláinn þangað til loksins að þeir fundu halla undan fæti. Hvetja þeir þá sporið og koma loks niður í dal einn, og ofan í hann fóru þeir. Þar var þokulaust.

Sáu þeir þá að þetta var seint mjög á degi. Bæ sáu þeir í dalnum; þangað gengu þeir og drápu á dyr. Kom þar kona til dyra. Þeir heilsuðu henni og spurðu hvort þeir mundu fá að vera þar um nóttina. Hún sagði að það mundu þeir fá.

Þeir spurðu hvað bærinn héti og hvert þeir væru komnir; því þeir sögðust ekki vita það af því þeir hefðu verið að villast allan daginn. Hún spurði aftur hvað þeir héldu um það hvar þeir væru. Þeir sögðu að það yrði að vera einhverstaðar fyrir norðan þó þeim þætti það kynlegt að þeir væru komnir svo langt á svo stuttum tíma.

Konan sagði þeim að koma þá inn í bæinn; þeir mundu seinna fá að vita hvert þeir væru komnir. Leiðir hún þá nú inn í baðstofu og inn í afþiljað hús í öðrum endanum. Fór hún þá burtu frá þeim, en að vörmu spori kemur þar inn stúlka um tvítugsaldur, fríð og fjörleg, með kertaljós í hendinni.

Þeir heilsa henni og tekur hún því vel. Síðan dregur hún af þeim vosklæðin og tekur öll föt frá þeim, sokka og skó og hvað eina. En þegar þeir sjá að hún ætlar burtu með fötin biðja þeir hana að gjöra það ekki; því þeir voru ekki alls kostar óhræddir um að sér væri hér hættulaust.

Hún sagði að sér hefði verið skipað þetta og fór hún svo með öll föt þeirra, skildi eftir ljósið, en skelldi húshurðinni í lás á eftir sér. Voru þeir nú kyrrir inni í húsinu fjárleitarmennirnir og þó smeykir mjög um sig.

Að litlum tíma liðnum heyra þeir barið á dyr. Sáu þeir í gegnum boru á húshurðinni að konan sem áður bauð þeim inn gekk með ljós til dyranna. Kom hún fljótt inn aftur og með henni karlmaður. Staðnæmdust þau fyrir framan húsdyrnar og fór hann að skafa af sér.

„Fannstu öll lömbin?“ spyr hún.

„Já,“ segir hann.

„Gott er það,“ segir hún og gengur burtu.

Að litlum tíma liðnum heyrist aftur barið. Fer sama kona með ljós til dyranna og kemur aftur og karlmaður með henni. Þau staðnæmast við húsdyrnar og fer hann að skafa af sér.

„Fannstu allar ærnar?“ spyr hún.

„Já,“ segir hann.

„Það er gott,“ segir hún og fer svo burtu.

Að litlum tíma liðnum er enn barið; fer sama kona með ljós til dyranna og kemur enn með henni karlmaður. Þau staðnæmast við húsdyrnar og fer hann að skafa af sér.

„Fannstu alla sauðina?“ spyr hún.

„Já,“ segir hann.

„Það er gott,“ segir hún og fer burtu. —

Að litlum tíma liðnum heyrist enn barið. Konan gengur til dyranna sem fyrr með ljós og kemur enn karlmaður með henni. Fór hann að skafa af sér fyrir framan húsdyrnar.

Þá spyr konan hann lágt að einhverju og heyrðist þeim kompánum ekki betur en hún segði: „Fannstu allt ókunnuga féð?“

„Já,“ sagði hann í hálfum hljóðum.

„Það er gott,“ segir hún og fer burtu. —

Að litlum tíma liðnum er enn barið. Konan fer sem fyrr með ljós til dyranna og nú kemur inn með henni maður kjólklæddur. Af honum fór hún sjálf að skafa á sama stað og hinir höfðu skafið af sér.

Hann spyr hana hvort nokkrir hafi komið þar í dag. Hún segir það vera.

„Voru tekin öll fötin þrælanna frá þeim og skór og sokkar?“ segir hann.

„Já,“ segir hún.

„Vel er það,“ segir hann.

Fara þau svo burtu.

En við þetta seinasta samtal konunnar og kjólmannsins fór ferðamönnunum heldur en ekki að hitna fyrir alvöru um hjartaræturnar. Töldu þeir nú víst að hyski þetta væri að taka saman ráð sín hvernig það skyldi drepa sig. En að lítilli stundu liðinni var húshurðinni lokið upp og kom stúlkan inn sem í þá hafði tekið og færði þeim heita og feita sauðaketssúpu að borða. Síðan fór hún út og skelldi hurðinni í lás á eftir sér.

Borðuðu þeir þá eftir lyst sinni svo hræddir sem þeir voru. Og með því þeir voru þreyttir sofnuðu þeir bráðum eftir máltíðina og vöknuðu við að verið var að lesa húslestur.

Hresstust þeir þá heldur í huga þegar þeir heyrðu það, og væntu að sér mundi þá síður vera neinn háski búinn. Leið svo nóttin að ekkert bar til tíðinda.

Morguninn eftir snemma kom stúlkan inn til þeirra. Hafði hún með sér þurr og hrein föt, önnur en sjálfra þeirra, og bað þá fara í þau því hún sagði að þeir ættu að vera þar kyrrir um daginn. Fór hún svo út aftur.

En þegar þeir voru nýklæddir kom hún enn inn og bar þeim kalt sauðaket til að borða og fór síðan út.

Á meðan þeir voru að snæða kom konan sú um kvöldið inn til þeirra. Fór hún þá að spyrja þá hvaðan þeir væru. Þeir sögðu henni það. Hún spurði þá ýmsra frétta úr Tungunum, en þeir leystu úr öllu eftir mætti.

Þá spyr hún þá hvort þeir þekki Jón bónda í Torfastaðakoti, hvort hann hafi misst brúðarefni sitt í fyrra, hvað menn hafi hugsað um það og hvernig honum líði. Leystu þeir úr öllu þessu og Jón sagði til sín hver hann væri.

Þá segir konan honum að hún sé hið horfna brúðarefni hans.

„Þegar ég var að þvo við lækinn forðum kom þar ríðandi maður, tók mig og flutti mig hingað. Er hann hér sýslumaður í dalnum og var nýbúinn að missa konu sína svo hann tók mig og átti mig. Er hann nú ekki heima í dag því hann er að taka próf í slæmu og flóknu þjófnaðarmáli í dalnum og hefur hann verið í því tvo dagana næstu á undan. En hann vill tala við þig,“ segir hún við Jón, „og því vill hann að þú sért hér kyrr í dag. Hann vill sumsé bæta þér brúðarránið og gefa þér dóttur sína, en það er stúlkan sem þjónaði þér til sængur í gærkveldi. Og til þess að koma þér hingað til viðtals heillaði hann fé þitt til sín og svo sjálfan þig á eftir, og mun þér verða afhent sauðfé þitt þegar þú ferð á stað.“ —

Glaðnaði nú yfir þeim Jóni og voru þeir kyrrir um daginn í góðu yfirlæti og skemmtu sér sem best þeir gátu.

Um kvöldið kom sýslumaður heim aftur, en hafði þó ekki tal af gestum sinum fyrr en um morguninn eftir. Og hvort sem þeir töluðu margt eða fátt þá samdist þó allt svo með þeim Jóni eins og konan hafði áður sagt honum.

Sagði sýslumaður að Jón skyldi koma til sín um vorið eftir stúlkunni og hafa sama mann með sér eða vera einsamall ella. Skyldi hann þá hafa með sér svo marga áburðarhesta sem hann vildi; því hann skyldi fá á þá hjá sér; því fé væri honum til einkis að fá hjá sér undir sumarið; það mundi undireins strjúka og aldrei tolla. —

Þegar þeir Jón fóru fékk sýslumaður honum allt sauðfé sitt með tölu og fylgdi honum svo langt á leið sem hann þurfti. —

Vorið eftir fór Jón og sami maður með honum og höfðu með sér tólf hesta reiðingaða. Sótti hann þá heitmey sína og lét sýslumaður alls konar matvöru á hestana fullklyfja.

Þegar Jón kom heim aftur að Torfastaðakoti gekk hann að eiga sýslumannsdótturina og bjuggu þau til elli í Torfastaðakoti og unnust vel. Er frá þeim kominn mikill ættleggur þó niðjar þeirra séu hér ekki nefndir.

En eftir því sem næst varð komist var útilegumannabyggð sú sem Jón sótti í konu sína Hvinverjadalir eða Þjófadalir í Langjökli norðanverðum. Og lýkur hér sögu þessari.

© Tim Stridmann